þriðjudagur, 18. maí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reikningurinn verður ekki sendur skattgreiðendum

14. apríl 2020 kl. 15:30

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra

Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir stigu fast til jarðar á Alþingi fyrr í dag þegar svokallað makrílmál kom til tals. Bjarni telur einsýnt að Alþingi undirbúi tafarlaust lagasetningu um að útgerðirnar beri sjálfar kostnaðinn af málinu.

„Það eru takmörk fyrir því hversu langt er hægt að ganga og það þurfa allir að leggjast á árarnar. Í því sambandi langar mig að segja þetta hér. Fiskveiðistjórnunarkerfi okkar er ekki náttúrulögmál. Það er mannanna verk. Aðgangur að auðlindinni, stjórnun veiðanna, hvernig við viljum tryggja sjálfbærni veiðanna, hvaða gjald við ætlum að taka í veiðigjald – þetta eru allt mál sem við ráðum til lykta hér á Alþingi. Með lögum og reglum og möguleg innbyrðis togstreita um aflaheimildir á milli útgerða verður ekki leyst á kostnað skattgreiðenda. Það verður ekki þannig. Nú höfum við tekið til varna í þessu svokallaða makrílmáli. Við munum taka til fullra varna og ég hef bara góðar væntingar um að við höfum sigur í því máli. En ef svo ólíklega vill til að það falli ríkinu í óhag þá er það einfalt mál í mínum huga að reikningurinn vegna þess verður ekki sendur á skattgreiðendur. Reikningurinn vegna þess verður þá að koma frá greininni sjálfri. Það er einfaldlega svo einfalt.“ (Uppfært 17:29 - sjá neðst í fréttinni).

Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, í ræðu sinni fyrir stundu þar sem áhrif COVID-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda voru rædd í kjölfar munnlegrar skýrslu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Þar talaði Katrín einnig skýrt eftir að hafa rætt samstöðuna í samfélaginu sem hún telur til fyrirmyndar. 

„En þá verður maður líka reiður þegar fyrirtæki í sjávarútvegi gera kröfu á ríkið upp á ríflega tíu milljarða króna vegna makrílúthlutunar. Það er ekki góð leið til þess að efla samstöðu í samfélaginu,“ sagði Katrín og bætti því við að henni þætti eðlilegt að útgerðirnar sem í hlut eiga myndu draga kröfur sínar til baka. 

„Nú reynir nefnilega á ábyrgð okkar allra. Hvort sem við erum að reka fyrirtæki, erum launafólk eða hver sem við erum.“

Að umræðunum loknum skrifaði forsætisráðherra eftirfarandi á Facebooksíðu sína: 

„Mér hefur orðið tíðrætt um samstöðu og samheldni sem hafa birst í íslensku samfélagi eftir að kórónaveirufaraldurinn blossaði upp. Þessi samstaða er aðdáunarverð og mun reynast okkar mesti styrkur til að sigrast á faraldrinum. En það er dapurlegt að sjá að á sama tíma og allir eru að leggja sitt af mörkum halda nokkrar útgerðir stefnu sinni á hendur ríkinu til streitu með kröfum sem nema meira en tíu milljörðum króna. Ég tel að staða ríkisins sé sterk í þessu máli og líkt og fram kom í máli fjármálaráðherra verður sá reikningur ekki sendur á skattgreiðendur. En auðvitað er enginn bragur á öðru en þessar útgerðir láti sínar kröfur falla niður og taki þátt í þeirri samstöðu sem við þurfum á að halda til að takast á við faraldurinn, bæði afleiðingar hans fyrir heilsu fólk en einnig fyrir samfélag og efnahag. Þetta var meðal þess sem ég ræddi í skýrslu minni til Alþingis í dag.“

Eins og komið hefur fram krefja sjö útgerðir íslenska ríkið um samtals 10,2 milljarða króna í skaðabætur vegna úthlutunar á aflaheimildum í makríl árin 2011-2018. Þetta kom fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, og Viðskiptablaðið hefur meðal annarra fjallað um.

Hæstiréttur dæmdi íslenska ríkið skaðabótaskylt gegn útgerðum aflareynsluskipa vegna úthlutunar aflahlutdeildar fyrrgreind ár. Samfelld veiðireynsla og bar því að kvótasetja á grunni hennar. Þess í stað var aflahlutdeild úthlutað samkvæmt reglugerð og hlutur aflareynsluskipanna skertur.

Hæsta krafan er frá Ísfélagi Vestmannaeyja, tæplega 3,9 milljarðar króna, en því næst kemur Eskja með rúmlega tvo milljarða. Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes vilja rúmlega milljarð hvort í bætur og þá vilja Huginn og Vinnslustöðin tæpan milljarð í bætur. Lægsta krafan er frá Gjögur sem vill 328 milljónir.

Í öllum tilfellum er krafist vaxta frá útgáfudegi reglugerða um veiðiheimildir í makríl auk dráttarvaxta frá þingfestingu málanna.

Uppfært 17:29

Bjarni Benediktsson skrifaði á facebook síðu sína fyrir um klukkustund. Þar rekur hann mál sitt frá því á Alþingi í dag og bætir við: 

Það kemur ekki til greina að ríkissjóður verði fyrir skaða vegna þessara málaferla. Ég tel því einsýnt að við munum þegar hefja undirbúning nauðsynlegrar lagasetningar sem taka af öll tvímæli um að makrilútgerðirnar sjálfar beri kostnaðinn af þeim bótum sem krafist er," skrifar Bjarni.