þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

,,Reyfarakaup "

2. nóvember 2012 kl. 12:35

Forsíða Fiskeribladet/Fiskaren í dag

Domstein kaupir Fram Foods í Svíþjóð af Arionbanka á lágu verði, segir forstjórinn

,,Reyfarakaup” er aðalfyrirsögn norska sjávarútvegsblaðsins Fiskeribladet/Fiskaren í dag og hefur eftir Rolf Domstein, forstjóra Domstein samsteypunnar í Noregi að þeir hafi keypt Fram Foods í Svíþjóð af Arionbanka á 3,7 milljónir króna eða jafnvirði tæplega 80 milljóna íslenskra. 

,,Við fengum Fram Foods ódýrt en það er jú löglegt að gera góð kaup,” segir Rolf Domstein í samtali við blaðið. Fram Foods verksmiðjurnar í Lysekil verða seldar áður en fyrirtækið er framselt en við munum leigja þær af kaupandanum. Við fáum rekstrarfé upp á rúmlega 40 milljónir [869 millj. ISK]. Nettó bókfærður hagnaður fyrir okkur er 30 milljónir króna [645 millj. ISK].”

Þess er getið að tap hafi verið á Fram Foods í Svíþjóð á undanförnum árum. Fram kemur að 54 manns starfi hjá fyrirtækinu og veltan í fyrra hafi numið jafnvirði 3,5 milljarða íslenskra króna. 

Fram Foods AB sérhæfir sig í framleiðslu og sölu á kældum sjávarafurðum undir eigin vörumerkjum sem og vörumerkjum samstarfsaðila. Fram Foods var upphaflega hluti af Bakkavarar-samstæðunni en árið 2003 keyptu nokkrir starfsmenn reksturinn að stórum hluta og hófu sjálfstæðan rekstur. Bankinn tók félagið yfir fyrir tveimur árum og setti það í söluferli í mars síðastliðnum.