fimmtudagur, 13. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reykjavík langhæsta löndunarhöfn botnfisks

11. janúar 2016 kl. 17:08

Reykjavíkurhöfn.

Þar voru 88 þúsund tonn lögð á land á árinu 2015.

Á nýliðnu ári var 87.551 tonni landað í Reykjavíkurhöfn og er hún að venju sú höfn þar sem mestum botnfiskafla er landað. Lítillegur samdráttur var þó milli ára eins og undanfarin ár eða um 241 tonn sem samsvarar 0,3% samdrætti.  Þrátt fyrir þetta ber Reykjavíkurhöfn höfuð og herðar yfir aðrar löndunarhafnir hér á landi þegar horft er til löndunar á botnfiski. Sú höfn sem kemur næst er Grindavíkurhöfn með 46.370 tonn og varð aukning þar um ein 10,9% eða um rúmlega 4,5 þúsund tonn.

Þetta kemur fram í frétt á vef Fiskistofu. Næst á eftir komu Vestmannaeyjar (34 þús. tonn), Siglufjörður  (29 þús. tonn), Hafnarfjörður (26 þús. tonn), Ísafjörður (22 þús. tonn), Akureyri (20 þús. tonn), Dalvík (18.800 tonn), Rif (16.200 tonn) og Bolungarvík (15.300 tonn).

Samdráttur var víða um land. Mestur var hann í magni talið á Djúpavogi eða um 6.600 tonn og mest hlutfallsleg aukning var á Hofsós um 148% eða úr 474 tonnum 2014 í 1.175 tonn 2015.

Ef horft er til landsvæða þá jókst landað magn á botnfiskafla mest milli áranna 2014 og 2015 í höfnum á Norðurlandi vestra eða um 15,7% eða úr tæpum 23,4 þúsund tonnum í rúm 27 þúsund tonn. Aukning var í löndun botnfiskafla á öllum landsvæðum að Austurlandi undanskildu en þar dróst hann saman um 9,8% eða um rúm 5,3 þúsund tonn.

Sjá nánar á vef Fiskistofu.