sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reykt þorskhrogn til Marks & Spencer

7. júní 2018 kl. 07:00

Fleiri markaðir hugsanlega að opnast fyrir Grím kokk

Grímur kokkur í Vestmannaeyjum fjárfesti fyrir skemmstu í tölvustýrðum reykofni og hefur gert samning við Marhólma um framleiðslu á soðnum og reyktum þorskhrognum sem síðarnefnda fyrirtækið flytur út og selur til Marks & Spencer verslanakeðjunnar á Bretlandsmarkaði með viðkomu hjá Bakkavör.

gugu@fiskifrettir.is

Vinnslustöðin á meirihluta í Marhólma á móti þeim Halldóri Þórarinssyni og Hilmari Ásgeirssyni. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á síldarréttum, hrognum, masoko og fleiri vörum.

Þetta er vara fyrir matgæðinga og segir Grímur Þór Gíslason að verkefnið fari vel af stað og byrjunin lofi góðu. Grímur er eigandi Gríms kokks ásamt eiginkonu sinni, Ástu Maríu Ástvaldsdóttur, og bræðrum sínum, Sigmari og Gísla Matthíasi. Fyrirtækið sendir frá sér ferskar vörur tvisvar á dag til Reykjavíkur.

540 tonna framleiðslugeta

Varan var þróuð í samstarfi Marhólma, Gríms kokks og Marks & Spencer. Grímur segir að upphaflega hafi verið rætt um að framleiðslan yrði um 70 tonn á ári. Framleiðslugetan með reykofninum tölvustýrða er 540 tonn á ári með sólarhringsvakt.

Það eru nítján ár síðan Grímur stofnaði fyrirtækið meðfram öðrum störfum og allt var í smáum stíl. Það vantaði stundum verkefni í miðri viku og þá byrjaði hann að steikja fiskibollur undir vörumerkinu Grímur kokkur. Starfsemin átti heldur betur eftir að vinda upp á sig. Nú starfar hann eingöngu við framleiðsluna ásamt vöskum hópi 17 starfsmanna. Vörutegundirnar eru 33 og pakkningastærðir eru allmargar. Fyrirtækið selur vörurnar jafnt í verslanir út um allt land, mötuneyti og veitingastaði.

Umtalsvert hefur verið fjárfest í nýjum tækjum hjá Grími kokki og þau störf sem hafa sparast með tækjavæðingunni í annarri framleiðslu nýtast nú í nýja verkefnið. Hrognin fara í 5 kg einingum til Bakkavarar sem pakkar síðan vörunni fyrir Marks & Spencer.

„Það er hugsanlegt að fleiri markaðir opnist fyrir þessa vöru. Það hefur farið smáræði inn á Grikkland en eingöngu reykt hrogn. En mjór er mikils vísir. Soðnu og reyktu hrognin sem fara á Bretlandsmarkað eru notuð í sósur og ídýfur en reyktu hrognin eru borðuð beint. Þetta er hreinræktað sælgæti og ég stend á beit þegar ég er að framleiða vöruna,“ segir Grímur.

Máltíðir gegn vannæringu

Grímur kokkur hefur átt gott samstarf við Matís í tengslum við vöruþróun. Nú er unnið að verkefni með Matís og Háskóla Íslands um þróun á orkuríkum réttum.

„Það hefur borið á því að leggja hefur þurft eldra fólk sem býr eitt inn á sjúkrastofnanir vegna vannæringar. Þessu fylgir óhjákvæmilega mikill kostnaður. Verkefnið gengur út á það að setja saman máltíðir fyrir einstaklinga sem eiga í þessum vanda.  Dags daglega erum við að framleiða fitu- og hitaeiningaskertan mat en þarna eru þessu þveröfugt farið. Verkefnið gengur út á að þróa hitaeiningaríkan og bragðgóðan mat. Margir þessara einstaklinga eru lystarlitlir og einungis hluti af svona máltíð getur fullnægt hitaeiningaþörfinni. Við höfum sent frá okkur prufur og móttökurnar hafa verið framar öllum vonum. Við erum samt einungis að stíga fyrstu skrefin í þessu verkefni en það gæti undið upp á sig. Við gætum þurft að búa okkur undir að framleiða fleiri þúsund skammta daglega fyrir þennan markhóp,“ segir Grímur.

Hann segir að með þessari leið gætu verulegir fjármunir sparast hjá hinu opinbera með færri innlögnum vegna vannæringar. Hugsanlega gæti það jafnframt verið hagur hins opinbera að niðurgreiða máltíðir af þessu tagi til þeirra sem þess þarfnast. Grímur segir að það yrði mun ódýrara leið en þær ítrekuðu innlagnir sem eigi sér stað inn á sjúkrastofnanir.

Máltíðir til viku í senn

„Þetta er mjög spennandi og þarft verkefni. Matís og háskólasamfélagið leggur mikið af mörkum við þróun máltíðanna. Mín upphaflega hugmynd var að þróa grænmetisrétti og hafa máltíðarnar sem hollastar. En þá var mér bent á að í réttunum ætti að vera bæði smjör og rjómi og þeir ættu að vera bragðgóðir. Um leið þarf að huga vel að hollustugildinu en hitaeiningarnar nást upp meðal annars með notkun smjörs og rjóma. Próteinið fæst úr fiskinum og með grænmeti sem meðlæti næst gott jafnvægi milli hollustunnar og orkuinnihaldsins.“

Búið er að þróa fjóra fiskrétti samkvæmt þessari formúlu og hugmyndir eru um mun fleiri rétti ef af framleiðslu verður. Grímur segir að útfærslan yrði líklega sú að senda máltíðir til einnar viku á hvert heimili sem geymdar yrðu í kæli. Með þessu drægi úr kostnaði við að koma vörunni til neytenda. Nákvæmar leiðbeiningar eru á umbúðum um hvernig á að hita réttina upp og bakkarnir þola jafnt eldunar- og örbylgjuofna.