föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reyndi á skilning bandalagsþjóða Íslendinga?

20. ágúst 2015 kl. 12:20

Þorsteinn Már Baldvinsson

Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar, fjallaði um innflutningsbann Rússa á matvæli og þátttöku Íslands í aðgerðum ESB í ræðu sinni á aðalfundi SVN

„Myndi það ekki njóta skilnings bandamanna okkar og vera í samræmi við áherslur Evrópusambandsins um að lágmarka tjón almennings og fyrirtækja, að nægjanlegt væri að Ísland lýsti yfir skýrri afstöðu þó svo ekki væri skrifað undir vopnasölubann sem vitað var að myndi leiða til innflutningsbanns á mikilvægar útflutningsvörur Íslands?“ 

Þetta sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar, í ræður sinni á aðalfundi Síldarvinnslunnar sem haldinn var í gær. Hluti ræðunnar er birtur á heimasíðu SVN. 

Viðskiptasambönd byggð á löngum tíma 

Þorsteinn gagnrýndi umræðuna hér á landi um innflutningsbann Rússa á matvæli frá Íslandi og aðgerðir ESB gegn Rússum. Hann sagði að viðbrögð sjávarútvegsins stjórnuðust ekki af skammtímahagsmunum eins og sumir stjórnmálamenn og fræðimenn hefðu haldið fram. Þvert á móti hefði sjávarútvegurinn byggt upp viðskiptasambönd við Rússa og aðrar þjóðir á löngum tíma. „Fullyrðingar um að þeir sem starfa í greininni sjái ekki lengra en tvo mánuði fram í tímann, þ.e.a.s. meðan svokölluð makrílvertíð stendur yfir, eru með ólíkindum,“ sagði Þorsteinn.

Ekki refsiaðgerðir 

Þorsteinn ræddi eðli aðgerða ESB gagnvart Rússum og sagði að ekki væri um eiginlegar refsiaðgerðir að ræða. Í raun snerust þær aðallega um bann við sölu hergagna. Talsmenn ESB héldu því sjálfir fram að aðgerðirnar ættu ekki að hitta fyrir almenning, hvorki í Rússlandi né löndum Evrópusambandsins.  

Þorsteinn spurði hvort ekki hefði verið möguleiki að fá skilning meðal Evrópusambandsþjóða og Bandaríkjamanna fyrir því að Ísland sé á móti aðgerðum Rússa í Úkraínu án þess að vera formlegur aðili að banninu, þar sem við hvorki framleiddum eða stunduðum viðskipti með hergögn. 

Tíminn ekki nýttur  

„Gagnrýni sjávarútvegsins snýr að því að tíminn var ekki nýttur til að ígrunda hvað væri í húfi, hvaða þýðingu Rússlandsmarkaður hefur fyrir Ísland og bera saman hvað þýðingu það hefði fyrir Ísland að vera aðili að vopnasölubanni á Rússland miðað við aðrar þjóðir. Hefðu Íslendingar ekki getað komið sjónarmiðum sínum varðandi aðgerðir Rússa í Úkraínu með öðru móti á framfæri án þess að skaða eigin hagsmuni eða fólks í Rússlandi þar sem ekki er um refsiaðgerð að ræða af hálfu Evrópusambandsins,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson ennfremur.