föstudagur, 7. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reynslusigling Viðeyjar RE tókst vel

2. nóvember 2017 kl. 14:30

Reynslusiglingin gekk að óskum. Mynd/HB Grandi

Helsti búnaður nýja ísfisktogarans, Viðeyjar RE, var prófaður í reynslusiglingu í Tyrklandi í gær og fyrradag og uppfyllti hann öll helstu skilyrði sem gerð eru við slíkar aðstæður.

Viðey er systurskip ísfisktogaranna Engeyjar RE og Akureyjar RE, sem einnig voru smíðaðir hjá Céliktrans skipasmíðastöðinni í Tyrklandi og hafa verið afhentir HB Granda.

Með í reynslusiglingunni nú voru þeir Jóhannes Eiríksson, skipstjóri á Ottó N. Þorlákssyni RE, sem verða mun skipstjóri á Viðey, Birkir Hrannar Hjálmarsson, útgerðarstjóri ísfisktogara HB Granda, og Þórarinn Sigurbjörnsson sem haft hefur eftirlit með nýsmíðunum í Tyrklandi fyrir félagið.

Frá þessu segir í frétt á heimasíðu HB Granda.

Að sögn þeirra félaga gekk reynslusiglingin vel. Ganghraðinn mældist mest 13,5 mílur og togátak var 46 tonn. Ef allt gengur að óskum ætti að vera hægt að sigla skipinu heim til Íslands í lok þessa mánaðar og það ætti því að vera komið til heimahafnar í Reykjavík um miðjan næsta mánuð, segir þar.