sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reynt að ná samkomulagi milli ESB og Marokkó

27. apríl 2012 kl. 16:43

Spænskir bátar í höfn í Marokkó eftir að bannið skall á.

ESB-skipum hefur verið úthýst úr marokkóskri lögsögu allt þetta ár.

Samningaviðræður hófust að nýju í síðustu viku milli Evrópusambandsins og Marokkó um fiskveiðiréttindi ESB í marokkóskri lögsögu. Skipum sambandsins hefur verið úthýst úr lögsögu Marokkó síðan í desember síðastliðnum en þá neitaði Evrópuþingið að samþykkja endurnýjaðan fiskveiðisamning á þeirri forsendu að með því væri verið að styrkja umdeild yfirráð Marokkó yfir Vestur-Sahara.

Spænskur sjávarútvegur á mikilla hagsmuna að gæta í þessu máli því fjöldi spænskra skipa hefur getað sótt á þessi mið um margra ára skeið. Haft er eftir ráðherra sjávarútvegsmála á Spáni á vefnum fis.com að viðræðurnar gangi vel og útlit sé fyrir að viðunandi samkomulag náist fyrir mitt þetta ár.

ESB hefur greitt um 36 milljónir evra á ári fyrir veiðiréttindin við Marokkóstrendur eða jafnvirði um 6 milljarða íslenskra króna. Um 660 spænskir sjómenn hafa misst spón úr aski sínum vegna þess að ekki hefur samist í deilunni og hafa þeir fengið 45 evrur í bætur (7.500 ISK) á dag alveg frá miðjum desember í fyrra þegar fyrri samningur rann út. Um 69 skip eiga hlut að máli og hafa eigendur þeirra fengið 100 evrur (16.600 ISK) á dag í bætur.

Eftir að Marokkó innlimaði Vestur-Sahara árið 1975 braust út uppreisn sem Polisario hreyfingin stjórnaði. Sameinuðu þjóðirnar komu á vopnahléi milli stríðandi aðila árið 1991 en samningaumleitanir síðan hafa ekki leitt til endanlegrar niðurstöðu.