þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

RFC lætur smíða 7 ofurtogara

Guðjón Guðmundsson
22. maí 2018 kl. 07:00

Glæra frá kynningu RFC í Brussel. Myndin sýnir útlit nýju ofurtogaranna.

Rússneski fjárfestingakvótinn innspýting í greinina.

 Rússneska fiskveiðifélagið, Russian Fishery Company (RFC), stefnir að því að stórauka surimi vinnslu úr ufsa og verða einn stærsti framleiðandi heims á þessu sviði árið 2024. Fyrirtækið er að endurnýja skipaflota sinn með sjö nýjum ofurtogurum, 108 metra löngum. Sá fyrsti verður afhentur 2020 og tveir á ári árin 2021, 2022 og 2023.

Floti RFC verður með afkastagetu upp á 85 tonn af ufsaflökum, 80 tonn af surimi úr ufsa, 50 tonn af marningi, 60 tonn af síldarflökum og 250 tonn af fiskmjöli á degi hverjum, að því er fram kom í máli Andrey Teterkin, framkvæmdastjóra RFC á sjávarútvegsýningunni í Brussel.

Fyrsta skipið er smíðað í Metalships & Docks í Vigo á Spáni en hin verða smíðuð í Admiralty Shipyards í Pétursborg.

1. apríl síðastliðinn urðu þær breytingar í Rússlandi að kvóta var úthlutað til fimmtán ára á grundvelli svokallaðs fjárfestingakvóta sem miðar að því að endurnýja fiskiskipastól og landvinnslu í Rússlandi.

Mikil uppbygging í gangi

Útgefinn heildarkvóti í öllum tegundum í Rússlandi er 4 milljónir tonna. Stjórnvöld hafa tekið frá 20% af öllum kvótanum, eða um 800.000 tonn, og sett í sérstakan pott. Til samanburðar má nefna að botnfiskafli íslenskra skipa fiskveiðiárið 2016/2017 var 441.000 tonn.

Útgerðarfyrirtæki sem hyggja á nýsmíðar geta sótt um kvótaúthlutun úr þessum potti og 60% af honum, eða um 480.000 tonn, er ætlaður til slíkrar uppbyggingar. Landvinnslur eiga kost að sækja um 40% af pottinum, alls 320.000 tonn, sem ætluð eru til uppbyggingar vinnslunnar.

Eins og greint var frá í Fiskifréttum í febrúar viku skrifuðu Skaginn 3X í samstarfi við Frost og Rafeyri undir samning um uppsetningu á uppsjávarvinnslu fyrir rússneska útgerðar- og vinnslufyrirtækið Gidostroy á Kúril-eyjum með afkastagetu upp á 900 tonn á sólarhring. Það sem styður við uppbyggingu rússneska fyrirtækisins er fyrrnefndur kvótapottur.

Fiskifréttir hafa líka greint frá samningi Knarr Maritime um hönnun á heildarlausnum fyrir sex togara fyrir stærsta útgerðarfyrirtæki Rússlands, Norebo Group. Í því skyni hefur Nautic, sem leiðir hönnunarvinnuna, keypt ráðandi hlut í rússneskri verkfræðistofu í Pétursborg.

 Kvótinn úr 368.000 tonnum í 485.000 tonn

„Lykillinn að okkar áformum er sveigjanleikinn,“ segir Teterkin í samtali við Undercurrent News. „Við gáfum þau fyrirheit fyrir þremur eða fjórum árum að breyta ímynd og eðli rússnesks sjávarútvegs. Við stefnum hægt en ákveðið í þá átt með stuðningi stjórnvalda, sem höfðu þá skynsemi að leiðarljósi að bjóða upp á þann mikla hvata sem felst í fjárfestingakvótanum. Þetta á eftir að gerbreyta eðli greinarinnar,“  segir Teterkin.

78% framleiðslu RFC árið 2017 var hausaður og slægður ufsi og afgangurinn ufsaflök. Fyrirtækið stefnir að því að árið 2024 verði hausaður og slægður ufsi um 12% framleiðslunnar, surimi 50% og flök 38%.

RFC ráðgerir ekki einungis að breyta samsetningu framleiðslunnar með nýja flotanum heldur stórauka veiðarnar. Fyrirtækið er með 368.000 tonna kvóta á yfirstandandi ári en hann verði kominn upp í 485.000 tonn árið 2024 þegar fjárfestingakvótinn hefur bæst við. RFC heldur nú þegar utan um stærsta ufsakvótann í Rússlandi.