föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ríflega helmingur sáttur

Guðsteinn Bjarnason
7. janúar 2019 kl. 12:00

Grásleppan veidd. MYND/ÞB

Könnun um breytt fyrirkomulag grásleppuveiða.

Tæplega 55 prósent grásleppuleyfishafa kýs heldur það fyrirkomulag grásleppuveiða sem notast var við síðastliðið sumar, frekar en að kvótasetja grásleppuveiðarnar á grundvelli veiðireynslu síðustu sex ára þar sem miðað yrði við þrjú aflamestu árin.

Þó myndu þeir, sem fengju kvóta samkvæmt breyttu fyrirkomulagi, almennt frekar vilja að aflamarki yrði úthlutað.

Nærri 90 prósent þeirra sem ekki fengju kvóta vilja óbreytt fyrirkomulag. Meðal þeirra sem fengju úthlutað allt að 10 tonnum myndu 70 prósent vilja óbreytt fyrirkomulag og meðal þeirra sem fengju 10 til 57 tonnum úthlutað myndu 42 prósent samt vilja óbreytt fyrirkomulag.

Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Gallup gerði fyrir Landssamband smábátaeigenda (LS) fyrir aðalfund sambandsins í október síðastliðinum. Niðurstöðurnar eru birtar í nýjasta hefti Brimfaxa, tímariti LS.

Svarhlutfall var 75 prósent.

Umræður hafa stundum myndast um það meðal grásleppusjómanna hvort kvótasetja ætti veiðarnar, en þær hugmyndir hafa jafnan verið felldar á aðalfundi. Þegar sjávarútvegsráðherra upplýsti að hann hyggðist endurskoða fyrirkomulag hrognkelsaveiða fór umræðan á flug og ákvað stjórn LS því að láta gera þessa skoðanakönnun.