

Hraðfrystihús Hellissands á Rifi hefur samþykkt kauptilboð í Rifsnes SH 44. Skipið fer til Nýfundnalands þar sem það verður gert út á vegum útgerðarinnar sem Vísir hf. í Grindavík á hlut í. Þetta kemur fram á vef Skessuhorns.
„Ég held að þetta verði þannig fyrsta beitningarvélaskip sögunnar sem gert er út frá Nýfundnalandi,“ segir Pétur H. Pálsson framkvæmdastjóri Vísis við Skessuhorn.
Fyrr í haust keypti Hraðfrystihús Hellissands annað línuskip í stað Rifsness af norskri útgerð. Það heitir Polarbris. Til stendur að afhenda það í Noregi í þessari viku og sigla því í framhaldinu heim til Íslands.
Polarbris er 775 brúttótonn; 43 metrar að lengd, 9 metrar að breidd og smíðað 1999. Rifsnes er aftur á móti talsvert minna; 372 brúttótonn, 38 metra langt og 7,8 metrar á breidd. Það var smíðað í Noregi árið 1968 en er mikið breytt og endurnýjað.