sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ríkið dæmt skaðabótaskylt

6. desember 2018 kl. 16:09

Huginn VE á siglingu. MYND/ÞB

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Huginn hf. og Ísfélag Vestmannaeyja hf. hafi fengið úthlutað of litlum makrílkvóta á árunum 2011 til 2014. Ráðuneytið íhugar næstu skref og boðar breytt skipulag stjórnar makrílveiða.

Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið beri skaðabótaábyrgð vegna fjártjóns sem Ísfélag Vestmannaeyja hf. og Huginn hf. kunni að hafa orðið fyrir vegna úthlutunar makrílkvóta á árunum 2011 til 2014.

„Ráðuneytið mun nú fara yfir forsendur dómsins með ríkislögmanni og í kjölfarið ákvarða næstu skref,“ segir í tilkynningu frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. „Þá er óhjákvæmilegt að jafnhliða verði tekið til athugunar breytt skipulag stjórnar makrílveiða.“

„Hætt er við að dómur Hæstaréttar eigi eftir að hafa mikil áhrif. Sérstaklega þegar horft er til skaðabótakrafna sem gætu numið milljörðum,“ segir Landssamband smábátaeigenda, sem skýrir frá dómunum á vef sínum. „Þá rótar dómurinn upp allri úthlutun í makríl þar sem aflamark áranna 2011-2014 hefði átt að byggjaast á aflahlutdeild reiknaðri út frá samfelldri veiðireynslu áranna sem voru 2008-2010, á 6 ára veiðitímabilinu 2005-2010.“

Hæstiréttur segir að með ákvörðunum Fiskistofu, sem teknar voru á grundvelli reglugerða, hafi bátum fyrirtækjanna verið „úthlutað minni aflaheimildum en skylt var“ samkvæmt lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

„Þess má geta að makrílveiðar smábáta voru þá lítt hafnar,“ segir á vef LS, „aðeins 180 tonn veidd árið 2010 og 304 tonn á árinu 2011, sem var 0,1 og 0,2% af heildaraflanum. Árið 2016 veiddu smábátar 8.368 tonn sem var 5,4% af heildarafla á makríl það árið.“

Nánar má lesa um dómana hér og hér.