föstudagur, 30. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Risafyrirtæki skora á strandríkin

Guðsteinn Bjarnason
29. júní 2020 kl. 14:00

Svo virðist sem fyrirtæki sem kaupa uppsjávartegundir til framleiðslu sinnar séu búin að missa þolinmæðina. Mynd/Viðar Sigurðsson

Stærstu kaupendur uppsjávarafurða senda áskorun til strandríkjanna við Norðaustur-Atlantshaf um að ná samkomulagi um stjórn uppsjávarveiða.

Þrjú stór fóðurframleiðslufyrirtæki, BioMar, Skretting og Cargill, hafa ásamt laxeldisrisanum Mowi sent frá sér áskorun til strandríkjanna við Norðaustur-Atlantshaf um að ná samkomulagi um stjórn uppsjávarveiða.

Frá þessu er greint á fréttavefnum Undercurrentnews.com.

MSC-vottun makrílveiða í Norður-Atlantshafi féll úr gildi á síðasta ári vegna þess að strandríkin, sem veiða úr stofninum, hafa ekki komið sér saman um skiptingu veiðanna. Flest bendir til þess að vottun norsk-íslensku síldarinnar falli einnig úr gildi af sömu ástæðu fyrir árslok, og kolmunnavottun er sömuleiðis í hættu vegna þess að Evrópusambandið, Noregur, Ísland og Færeyjar hafa ekki getað náð samkomulagi.

Ýta á stjórnvöld

„Við reiknum með því að þetta verði sterkur hvati til stjórnvalda í strandríkjunum til að ákveða veiðiheimildir fyrir fiskveiðar í Evrópu sem eru innan vísindaráðgjafar,“ segir í yfirlýsingu fyrirtækjanna.

„Án samkomulags um þetta meðal stjórnvalda verður ekki hægt að stjórna þessum fiskveiðum með sjálfbærum hætti,“ segir ennfremur.

Þessi fyrirtæki kaupa bæði mjöl og lýsi, afurðir sem unnar eru úr kolmunna, makríl og síld. Þau eru samanlagt langstærstu kaupendur þessara afurða.

„Við ættum ekki að þurfa að minna á efnahagslegt mikilvægi þess að komast hjá hruni stofnanna,“ segir í yfirlýsingunni. „Við hvetjum þá sem veiða og vinna aflann að átta sig á þeirri hættu sem steðjar að þeim og lifibrauði þeirra vegna ósjálfbærrar stýringar veiðanna.“

Svo virðist sem fyrirtæki sem kaupa uppsjávartegundir til framleiðslu sinnar séu búin að missa þolinmæðina. Aðsend mynd