laugardagur, 15. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þrjú skip fiskuðu fyrir meira en milljarð árið 2007

17. júlí 2008 kl. 07:16

Aflaverðmæti fiskiskipa árið 2007

Þrjú íslensk fiskiskip skiluðu meira en milljarði króna hvert í aflaverðmæti á síðasta ári (fob), samkvæmt samantekt Fiskifrétta sem unnin er upp úr nýbirtri skýrslu Hagstofu Íslands. Uppsjávarveiðiskipið Vilhelm Þorsteinsson EA, sem er í eigu Samherja, fiskaði fyrir 1.370 milljónir króna. Hákon EA, sem er í eigu Gjögurs ehf. og er einnig á uppsjávarveiðum, var með 1.113 milljónir króna í aflaverðmæti. Og frystitogarinn Mánaberg ÓF, sem Rammi hf. gerir út á bolfiskveiðar, skilaði 1.068 milljónum króna.

Til samanburðar má geta þess að fimm fiskiskip fóru yfir milljarðinn í aflaverðmæti á árinu 2006, þau Hákon EA, Arnar HU, Þór HF, Höfrungur III AK og Engey RE. Af ísfisktogurum skilaði Suðurey VE mestu aflaverðmæti á síðasta ári eða 621 milljón króna. Togbáturinn Smáey VE gerði það best í bátaflotanum og fiskaði fyrir 477 milljónir króna. Bárður SH varð langhæstur smábáta á aflamarki með 193,9 milljónir króna og Happadís GK skilaði mestu í flokki krókaaflamarksbáta eða 193,6 milljónum króna.

Heildaraflaverðmæti fiskiskipaflotans á árinu 2007 nam liðlega 80 milljörðum króna sem er um fjórum milljörðum meira en árið áður. Verðmætin skiptust milli útgerðarflokka með þeim hætti, að bátaflotinn og frystitogaraflotinn skiluðu svipuðum verðmæti eða 27% af heild hvor um sig, hlutur uppsjávarskipanna var 19% og ísfisktogarar og smábátar skiluðu 14% hvor flokkur.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Fiskifrétta sem fylgir með Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér.