laugardagur, 29. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rækjukvótinn: Áður verðlaus en nú eftirsóttur

28. apríl 2009 kl. 15:00

Talsverð eftirspurn er nú eftir leigukvóta í úthafsrækju og hefur verð á honum hækkað. Ekki er langt síðan þessi kvóti var verðlaus en veiðar á úthafsrækju hrundu árin 2005 og 2006.  

Árið 2007 fór veiði á úthafsrækju niður í tæp 900 tonn en var þegar best lét um 75 þúsund tonn á ári. Aðeins þrjú til fjögur skip stunduðu úthafsrækjuveiðar á síðasta ári, þar af einn rækjutogari. Í ár verða skipin að minnsta kosti tíu og þar af fjórir togarar.

Rækjukvótinn hefur jafnframt dregist saman og nemur úthlutunin aðeins 7 þúsund tonnum á yfirstandandi fiskveiðiári. Aflamarkið í heild er um 8 þúsund tonn með því sem flutt er milli ára.

Veiðarnar eru rétt að fara af stað og hefur aðeins verið landað um 900 tonnum á fiskveiðiárinu. Þótt lítið sé veitt er ekki mikið framboð af rækjukvóta til leigu, að því er Björn Jónsson hjá kvótamiðlun LÍÚ sagði í samtali við Fiskifréttir. Björn sagði að þau sjávarútvegsfyrirtæki sem ættu kvótann væru mörg hver að útbúa skip til veiðanna eða hefðu tryggt sér skip í viðskipti til að veiða kvótann.

Undanfarin ár hefur úthafsrækjukvótinn verið nánast verðlaus vegna lítillar eftirspurnar. Á síðasta ári var rækjukvótinn leigður á 2-3 krónur á kílóið. Leigan er nú komin upp í 5 krónur á kílóið.