þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rólegt yfir makrílveiðum

29. júní 2011 kl. 15:25

Ingunn AK (Jón Páll Ásgeirsson)

Flest uppsjávarskipin eru að veiðum utan í Mýrargrunni og Öræfagrunni.

Flest íslensku uppsjávarveiðiskipin eru nú að makrílveiðum við suðausturströndina en þar hefur verið ágætis kropp að undanförnu. Rólegt er yfir veiðunum í dag, að sögn Guðlaugs Jónssonar, skipstjóra á Ingunni AK, en hann vonast til þess að aflinn glæðist með hækkandi sjávarhita.

,,Skipin eru á veiðum utan í Mýrargrunninu og Öræfagrunninu og við erum, á að giska, um 35 mílur út af Ingólfshöfðanum. Við komum hingað í gær eftir að hafa landað um 350 tonnum af makríl á Vopnafirði sl. mánudag en sá afli fékkst á einum sólarhring. Hér veiðist nánast hreinn makríll en aflinn hefur verið aðeins blandaðri hjá þeim sem reynt hafa fyrir sér dýpra,“ segir Guðlaugur í samtali á heimasíðu HB Granda.  Að hans sögn er hitastig sjávar enn mjög lágt, þótt það fari hægt hlýnandi.

,,Það er vetrartíð á miðunum norðaustur af landinu og þar verður væntanlega enga síld eða makríl að finna fyrr en sjórinn hlýnar. Lundey NS fór í leiðangur um þetta hafsvæði á dögunum og þar var ekkert líf. Makríllinn virðist halda sig sunnan við landið þar sem sjórinn er heldur hlýrri en ég á ekki von á því að menn verði varir við makríl fyrir vestan land fyrr en það hlýnar. Makríllinn, sem við höfum verið að veiða, er stór og góður en það mætti vera meira af honum en raunin er í dag,“ segir Guðlaugur en er rætt var við hann var Ingunn komin með um 130 tonna afla.