þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rótfiskar á línuna

25. janúar 2018 kl. 08:00

MYND/ALFONS FINNSSON

Tryggvi Eðvarðs SH kominn með 150 tonn í mánuðinum

Gylfi Ásbjörnsson, skipstjóri á Tryggva Eðvarðs SH, var í landi þegar haft var samband enda þriggja daga bræla framundan. Tryggvi Eðvarðs er með aflahæstu línubátum í sinum stærðarflokki og afli upp úr sjó á þessu kvótaári er farinn að nálgast 760 tonn.

„Það hefur verið fínt veður til að sækja sjóinn fram að þessu en nú spáir brælu. Þetta hefur gengið alveg bærilega hjá okkur,“ segir Gylfi. Báturinn er gerður út frá Rifi en mest hefur verið róið frá Arnarstapa. Báturinn var svo í tæpa viku á Hólmavík og réri þaðan.

„Fiskiríið hefur verið fínt. Það eru komin 150 tonn í þessum mánuði og nóg eftir af honum. Það er heldur meiri kraftur í veiðunum núna á línu en á sama tíma í fyrra en snurvoðin gefur heldur minni. En þetta hefst ekki nema með því að róa. Við höfum verið að sækja þetta út á tíu til tólf mílur út frá Arnarstapa og í desember tókum við túra norður að Látraröst. Það var um það bil 50 mílna sigling og gerðum við ekki annað þá en að sigla út og aftur heim. Við fengum góða túra þangað,“ segir Gylfi.

15 tonn í síðasta túr
Síðasti túr gaf um 15 tonn en Gylfi kveðst leggja áherslu á að koma með fiskinn sem ferskastan að landi og er því oftast að veiða 10-12 tonn í körin vel ísuð. Oft er því ekki tími til þess að skilja línu eftir í sjó. Aflinn fer allur á Fiskmarkað Snæfellsbæjar. Gylfi segir fiskmarkaðurinn hafi létt mjög undir útgerð bátsins því nú er hægt að landa allan sólarhringinn.

„Það er þvílíkur munur að þurfa ekki vera fastur á einhverri klukku því sjómennsku býður ekki upp á slíkt. Við höfum margsinnis landað á nóttunni og þessi nýi fiskmarkaður á hrós skilið fyrir góða þjónustu.“

Róið er með handbeitta línu, 48 bala,  og hefur Gylfi verið að fá allt upp í 350 kíló á bala. Það er því óhætt að tala um hörkufiskerí. Að uppistöðu er aflinn vænn þorskur og eitthvað hefur veiðst af ýsu. Þrír eru í áhöfn Tryggva Eðvarðs og er jafnan farið út upp úr miðnætti og landað fyrir kvöldmat. Gert er út fram í júní og þá tekur við þriggja til fjögurra mánaða sumarfrí.

Veiðigjöldin kæfa reksturinn
„Verðið er talsvert skárra en í fyrra. Kílóið fer alla vega stundum yfr 250 kr. en við vorum að fá allt niður í 190 kr. og meðalverð um 200 kr. Þetta ætti því að standa ágætlega undir sér en veiðigjöldin drepa svona útgerð. Þau eru ósanngjörn og of há fyrir minni einyrkjaútgerðir. Það er lítið eftir í veskinu og þessi vertíð verður mikill barningur. Það birtir ekki til fyrr en veiðigjöldin lækka. Áhrifin leyna sér ekki heldur því fjölmargar útgerðir hafa verið seldar á þessu kvótaári,“ segir Gylfi.