þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rúmlega 5.000 tonn af kolmunna til Vopnafjarðar

28. apríl 2020 kl. 10:34

Venus og Víkingur - skip Brims. Mynd/Kristján Maack

Skip Brims biðu í heila viku á miðunum suður af Færeyjum áður en vart varð við kolmunna í veiðanlegu magni.

Uppsjávarskipin Víkingur AK og Venus NS komu bæði til Vopnafjarðar í síðustu viku með samtals rúmlega 5.000 tonn af kolmunna. Afli Víkings var um 2.550 tonn en Venus var með rúmlega 2.600 tonna afla.

Frá þessu segir á heimasíðu Brims, útgerðar skipanna.

Heimasíðan náði tali af Hjalta Einarssyni, skipstjóra á Víkingi AK, en skipið var þá á sínu öðru holi í veiðiferðinni sunnarlega í færeysku lögsögunni. Að sögn Hjalta kom Víkingur á miðin frá Vopnafirði sunnudagsmorgun.

„Það er togað lengi eða í um 20 tíma í senn og aflinn í fyrsta holinu var um 330 tonn. Kolmunninn virðist ganga rólega hingað norður eftir og aflinn er mjög misjafn. Albert Sveinsson var með skipið í síðustu veiðiferð og mér skilst á honum að það hafi fengist frá um 200 tonnum og upp í 580 tonn í holi. Reyndar þurftu menn að bíða lengi eftir því að kolmunninn skilaði sér inn í færeysku lögsöguna og skip Brims biðu t.a.m. í heila viku á miðunum áður en menn urðu varir við kolmunna í veiðanlegu magni,” sagði Hjalti Einarsson.

Mikill fjöldi skipa er nú á kolmunnaslóðinni í færeysku landhelginni. Auk Íslendinga eru það aðallega skip heimamanna og Rússa, auk eins grænlensks skips, sem hafa stundað veiðarnar.