þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rúmlega þriðjungur mældist innan íslenskrar lögsögu

26. ágúst 2015 kl. 12:16

Makrílrannsóknir um borð í Árna Friðrikssyni nú í sumar. (Mynd: Guðm. Bjarnason).

Heildarvísitala makríls mældist 7,7 milljónir tonna í leiðangri Færeyinga, Íslendinga, Norðmanna og Grænlendinga

Niðurstöður sameiginlegs makrílsleiðangurs Færeyinga, Íslendinga, Norðmanna og Grænlendinga sem farinn var í sumar liggja nú fyrir í heild sinni. Rúm 37% makrílsins mældust innan íslenskrar efnahagslögsögu, að því er fram kemur í frétt á vef Hafrannsóknastofnunar.

Magn og útbreiðsla makríls á svæðinu var metin út frá afla í stöðluðum togum sem tekin voru með reglulegu millibili og var rannsóknasvæðið um 2,7 milljón ferkílómetrar. Heildarvísitala makríls (lífmassi) á svæðinu var metin um 7,7 milljón tonn, þar af voru tæp 2,9 milljón tonn innan íslenskrar efnahagslögsögu eða rúm 37% af heildarvísitölunni. Heildarvísitalan í ár er 1,3 milljón tonnum lægri en á síðasta ári en þá var hún sú hæsta síðan rannsóknirnar hófust árið 2007. Vísitala makríls innan íslenskrar lögsögu hefur hins vegar aldrei verið eins há og í ár, en síðustu þrjú ár var vísitalan þar um 1,6 milljón tonn. Á öðrum svæðum var magnið minna en á síðasta ári. Mesta þéttleika makríls var að finna suður af Íslandi og náði útbreiðslan þar sunnar en áður hefur sést.  

Sjá nánar á vef Hafrannsóknastofnunar.