mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rúmur helmingur makrílkvótans til grænlenskra skipa

13. maí 2014 kl. 13:43

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson).

Um 38% fara til skipa sem leigð eru til landsins en verði með grænlenskri áhöfn

Sjávarútvegsráðherra Grænlands hefur ákveðið að rétt rúmum helmingi af 100 þúsund tonna makrílkvóta Grænlands verði úthlutað til grænlenskra skipa í forgangsflokki, að því er fram kemur á vef grænlensku landsstjórnarinnar.

Ákvörðunin er tekin eftir að veiðigeta skipa í forgangsflokki hafði verið metin. Þau fá 52% af kvótanum, eða alls 52 þúsund tonn.

Sjávarútvegsráðuneytið fékk umsóknir um makrílkvóta frá 37 aðilum en 12 af þeim fá úthlutað. Í heild var sótt um 300 þúsund tonn.

Við úthlutunina er fylgt stefnu ráðuneytisins sem kynnt var fyrir nokkrum mánuðum um að áhersla skuli lögð á að makrílkvótinn deilist á eins mörg grænlensk skip og mögulegt er. Tilgangurinn er sá að efla atvinnlífið á Grænlandi og gefa fleirum tækifæri til að taka þátt í þessum veiðum en áður. 

Sjávarútvegsráðherra hefur ennfremur ákveðið að 38% af makrílkvótanum deilist til umsækjenda í öðrum og þriðja forgangshópi. Í forgangshópi tvö eru útgerðir, sem gera út grænlensk skip, en leigja til sín skip sem mönnuð verða Grænlendingum. Í forgangshópi þrjú eru aðilar sem eiga ekki skip fyrir en leigja til sín skip með grænlenskri áhöfn.

Beðið verður með að úthluta eftirstöðvum kvótans, 10 þúsund tonnum, og verður hann geymdur handa þeim útgerðum sem ná árangri við veiðarnar og sýna þar með fram á að þær hafi bolmagn til að nýta úhlutaðar aflaheimildir.