sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sæplast þróar grynnri fiskiker sem staflast betur

18. nóvember 2017 kl. 08:00

Milljónasparnaður í flutningi tómra kera

 

Sæplast á Dalvík hefur í samstarfi við Matís, Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, ITUB og Icefresh, dótturfyrirtæki Samherja í Þýskalandi, þróað nýja gerð fiskikera sem geta lækkað flutningakostnað fiskflutningaskipa í bakafragt um u.þ.b. 40%. Kerin kallast tvíburaker því tóm staflast þau ofan í hvert annað og bæta rúmmálsnýtingu í flutningi tómra kera um 40-60%, sem fer eftir stærð gáma. Tvíburaker Sæplasta voru tilnefnd sem ein af framúrstefnuhugmyndum 2017 á Sjávarútvegsráðstefnunni. 

 

Með þessu móti væri hægt að koma 40-60% meira af fiski úr heilum gám af stöfluðum, tómum tvíburakerum en í tóm 460 l fiskiker úr öðrum jafnstórum, heilum gámi.

Björn Margeirsson, rannsóknastjóri Sæplasts og lektor við Háskóla Íslands, segir að grunnhugsunin að baki þróunar keranna sé sú að spara pláss þegar tóm ker eru flutt til baka sem fyrst og fremst er sjóleiðis en þó einnig landleiðis.

Hefðbundin fiskiker eru í dag 460 lítra en nýju kerin verða líklega um 7 sm grynnri og taka þá um 290 lítra. Björn segir muninn þó minni því raunverulegt rúmtak 460 lítra keranna sé rúmlega 400 lítrar. Tíðkast hefur að þeir sem hafa viljað hámarka rúmmálsnýtingu hafi sett um 310-320 kg af fiski í 460 lítra kerin en þeir sem vilja hámarka gæðin um 270 kg. Sæplast hefur gert eina prótótýpu sem var 10-15 sm grynnri en 460 lítra kerin en ágallar voru á henni. Fyrirtækið hefur nú þróað aðra prótótýpu sem er um 7 sm grynnri.

Ofurkældur fiskur í kerum

Allar miðast þessar tölur við ísaðan fisk en við þróun nýju keranna er ekki síður tekið mið af þeirri þróun sem hefur orðið á ofurkælingu fisks. Enn meira af fiski kemst að sjálfsögðu fyrir í kerunum þegar hann er ofurkældur og óísaður. Almennt má segja að 40-70 kg af ís sé í 460 lítra kerunum miðað við að í þeim séu 300 kg af fiski. Ís-fisk-hlutfallið er því um það bil einn á móti fimm. Ofurkæling er því önnur leið til þess að draga úr flutningskostnaði.

„Við höfum verið að skoða flutning á ofurkældum fiski í kerum. Fram til þessa hafa hefðbundin 460 lítra ker ekki þótt koma til greina sem ílát fyrir til dæmis eldisfisk út frá gæðum. Hann hefur nær allur verið fluttur út í frauðkössum. Með tilkomu ofurkælingarinnar eru að skapast tækifæri til þess að nota dýpri ílát eins og fiskiker og þá sérstaklega ker í grynnri kantinum. Í okkar þróun lítum við til þess að þessi nýju ker verði í miklum mæli notuð fyrir fiskeldi til framtíðar litið,“ segir Björn.

Hann segir ávinning fiskeldisins við að taka upp notkun fiskikera sé fyrst og fremst þær fjárhæðir sem sparast við að kaup á frauðkössum. Þeir séu einnota en hvert ker er hægt að nýta í um það bil 8-20 ár. Á móti komi flutningskostnaður á kerunum í bakfragtinni og þess vegna skipti það meginmáli að koma eins mörgum tómum kerum fyrir í hvern gám.

Útflutningur á ferskum, heilum fiski frá Íslandi var nálægt um verið á bilinu 25-60 þúsund tonn á ári undanfarinn áratug. Þessi fiskur hefur að mestu verið fluttur út í 460 lítra kerum. Ætla má að fyrir hver 30.000 tonn þurfi um hundrað þúsund ker. Fari kostnaður af bakfragt einnar milljóna kera niður um 40% má áætla að sparnaður atvinnugreinarinnar geti hlaupið á mörgum tugum milljóna króna.

Horft til fersks lax frá Noregi

„Rúmmálsnýting tvíburakeranna í gámi er þó ekki meiri en 460 lítra keranna þegar fiskur er kominn í þau heldur mjög svipuð. Það stjórnast af þyngdartakmörkun gáms sem er mismunandi eftir Evrópulöndum. Gámarnir sjálfir vega um 4-5 tonn, mesta burðargeta er um 29 tonn en almennt er ekki hlaðið meira en 22-25 tonnum í þá ef flytja á þá eftir vegi í kjölfar sjóflutnings. Inn í hvern gám fara því ekki nema 55-70 stk. 460 lítra ker með fiski og ís. En í einn gám komast um 80 tóm 460 lítra ker. Rúmmál gámsins er því ekki vel nýtt í útflutningi nema þegar um er að ræða léttari pakkningar eins og frauðkassa.“

Sæplast telur markað fyrir nýju tvíburakerfin mun víðar en einungis í sjávarútvegi. Þar gæti komið til flutningur á kjöti og aukaafurðum í alls kyns matvælaframleiðslu á alþjóðavísu.

„Flutningur á ferskum laxi frá Noregi kemur einnig sterklega til greina en sá markaður er mjög stór. Ferskur lax er núna að langmestu leyti fluttur í frauðkössum. Nokkrir framleiðendur í Noregi hafa hafið ofurkælingu á sínum afurðum og eru farnir að prófa sig áfram með ker í stað frauðkassa. Þarna sjáum við mikla möguleika,“ segir Björn.

Sæplast er með einkaleyfi fyrir tvíburakerinu á Íslandi og einkaleyfisumsókn er nú í vinnslu í mörgum löndum.