miðvikudagur, 1. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Saka Íslendinga um ábyrgðarleysi

Guðsteinn Bjarnason
24. febrúar 2020 kl. 16:10

Makríllinn hefur verið bitbein strandríkjanna í meira en áratug. MYND/Viðar Sigurðsson

Tveir helstu forsvarsmenn í norskum sjávarútvegi beina spjótum sínum að Íslendingum í grein um deilistofnana í Norður-Atlantshafi.

Tveir helstu forsvarsmenn í norskum sjávarútvegi, þeir Audun Maråk og Kyrre Dale, eru ómyrkir í máli um íslenskan sjávarútveg í grein í norska Fiskeribladet.

Þar eru þeir að svara ásökunum Heiðrúnar Lind Marteinsdóttur frá í nóvember, en Heiðrún sagði Norðmenn „hafa staðið í vegi fyrir farsælu samstarfi ríkjanna um stjórn og skiptingu veiðiréttar. Skiptir engu þótt talsmenn norskra útgerðarmanna haldi öðru fram.“

Deilan snýst um skiptingu veiðiréttar milli strandríkjanna í Norðaustur-Atlantshafi og stjórn veiða úr deilistofnunum þremur, síld, kolmunna og makríl.

Maråk er framkvæmdastjóri Fiskebåt, sem eru samtök norskra útgerðarmanna, en Dale er fagstjóri hjá SjømatNorge, samtökum sjávar- og fiskeldis í Noregi.

Þeir segja Íslendinga lengi hafa hagað sér með óábyrgum hætti þegar kemur að fiskveiðum á alþjóðlegum veiðislóðum.

Kúgunartilburðir

Þar vísa þeir allt aftur til veiða Íslendinga í Barentshafi á tíunda áratug síðustu aldar, og segja norsk stjórnvöld hafa látið undan kröfum Íslendinga um þorskkvóta þar af ótta við afleiðingarnar: „Íslendingar höfðu engan sögulegan rétt í Barentshafi, en kúgunaraðferðin heppnaðist. Reikninginn þurfti norska útgerðin að greiða.“ Sú saga hafi svo endirtekið sig í rækjuveiðum við Kanada og gagnvart Noregi aftur í kolmunna- og síldveiðum.

Eftir aldamótin hafi svo röðin verið komin að makrílnum: „Fram til ársins 2008 stýrðu Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar veiðum úr makrílstofninum og tóku gjald af. Stofnin hafði náð metstærðum og fór inn á íslenskt hafsvæði. Íslendingar gripu tækifærið og komu með ósanngjarnar kröfur um kvótahlutdeild,“ segja þeir.

„Ef hin strandríkin hefðu hagað sér eins og Ísland væri stofninn ofveiddur í dag,“ bæta þeir við.

Með ráðum gert

Heiðrún lítur allt öðrum augum á þetta mál: „Norðmenn hafa þrýst á hærra veiðihlutfall en áður gilti í hverjum fiskistofninum á fætur öðrum og þar með lagt aukna áherslu á sjónarmið aukins afla til skamms tíma og minnkaða áherslu á langtímasjónarmið varkárni, stöðugleika og sjálfbærni.“

Hún spyr hvað skýri þessa afstöðu Norðmanna, og svarar sér sjálf: “Ekki verður annað ráðið en að ástæðan sé fyrst og síðast sú, að Norðmenn þráast við að halda úti fiskiskipaflota sem er alltof stór miðað við tækifærin sem þeim bjóðast til veiða.“

Þeir Maråk og Dale viðurkenna reyndar að norski fiskiskipastóllinn sé of stór, en segja það vera með ráðum gert bæði af hálfu stjórnvalda og útgerðar. Norðmenn hafi ekki viljað samþjöppun í útgerð í sama mæli og Íslendingar, auk þess sem Norðmenn hafi ekki þurft að hámarka tekjurnar af fiskveiðum eins og Íslendingar hafi þurft að gera: „Noregur hefur kosið að fjármagna umframveiðigetu flotans til að verja störf og búsetu í strandbyggðum.“

Birtist upphaflega í Fiskifréttum 20. febrúar.