sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sala til Japan farið úr 11 í 36%

6. júní 2018 kl. 07:00

Fjöldi manns var samankominn á Skansinum þegar Breki VE sigldi í fyrsta sinn inn til hafnar. MYND/ÓSKAR P. FRÐRIKSSON

Mikill árangur af eigin markaðsstarfi Vinnslustöðvarinnar

Breki VE, fyrsta nýsmíði Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, lá í höfn og verið að hífa í hann millidekkið. Vonir standa til að hann geti landað úr sínum fyrsta túr í júní. Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson hafði farið í prufutúr þar sem spil voru m.a. prófuð undir álagi. Allt gekk að óskum. Í fundarherbergi Vinnslustöðvarinnar hafa margir hildir verið háðir og þar settumst við að spjalli. Binni hefur stýrt Vinnslustöðinni  í tæpa rúma tvo áratugi og náð að snúa taprekstri í hagnað.

gugu@fiskifrettir.is

Eitt fyrsta verk Binna var erfitt því segja þurfti upp helmingi af starfsfólki Vinnslustöðvarinnar vegna rekstrarerfiðleika. Þetta var á tíunda áratug síðustu aldar. Í Vestmannaeyjum var 6-8% atvinnuleysi og margir að huga að því að flytja á brott. Þannig var umhverfið þá.

Nú hefur staðan gerbreyst í Eyjunni fögru, jafnt með vænkandi hag sjávarútvegsfyrirtækja og ekki síst munar um meiri slagkraft í ferðaþjónustu.

Eigið markaðsstarf

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hefur náð verulegum árangri með eigin markaðsstarfi frá því það hófst fyrir alvöru 2006. Sölufyrirtæki í eigu VSV eru sex talsins; á Íslandi, Þýskalandi, Portúgal, Hollandi, Frakklandi og Rússlandi .  Þau hétu About Fish en nú er verið að breyta nöfnum þeirra í VSV ásamt nafni hvers lands. Binni framkvæmdastjóri segir að þegar hve mest hafi þrengt að Vinnslustöðinni og framtíð rekstrarins alls ekki verið tryggður hafi fyrirtækið selt næstum 95% allra sinna afturða í gegnum SÍF. Selt var fyrir um 2,5 milljarða króna og umboðslaunin voru um 50 milljónir á ári.

"Vinnslustöðin var í þeirri stöðu að þurfa að velta fyrir sér hverri krónu. Umboðslaunin komu líka til skoðunar og vildum við Stebbi Friðriks, sem nú er framkvæmdastjóri Ísfélagsins,  fá 10 milljónir króna í afslátt fyrir umfangsmikil viðskipti við SÍF.  Móttökurnar sem við fengum við erindinu voru í okkar huga sem spark í rassinn. Við máttum éta það sem úti frýs. Þetta varð upphafið að því  að við fórum að huga að eigin markaðsstarfi,“

2006 keypti VSV sig inn í félagið About Fish og keypti síðan í framhaldinu 2009 allt félagið. Fjórum árum fyrr hafði About Fish opnað söluskrifstofu í Þýskalandi sem gekk mjög vel. Í kjölfarið var opnuð skrifstofa í Rússlandi. Á síðustu tveimur árum hefur fyrirtækið opnað skrifstofur í Portúgal sem sinnir þarlendum markaði, Suður-Evrópu og Brasilíu. Opnuð var skrifstofa í Frakklandi og fyrir þremur árum var ráðinn japanskur sölusérfræðingur í vinnu sem nú er staðsettur í Hollandi en verður í framtíðinni með bækistöðvar í Japan. Vinnslustöðin á 75% í Marhólmum sem meðal annars framleiðir síld og aðra vöru inn á Finnlandsmarkað og er með skrifstofur þar.

Dýpri skilningur á loðnumarkaði

„Við höfum náð dýpri skilningi og þekkingu á loðnumarkaðnum í kjölfar kaupa okkar á hlut í japanska fyrirtækinu Okada Suizan. Aðkoma okkar þar hefur veitt okkur betri aðgang að markaðnum og við erum nær honum. Okada Suizan er með 50% markaðshlutdeild í frystri loðnu í Japan. Núna í vetur vorum við því í fyrsta skipti pollrólegir fyrir loðnuvertíðina og vissum hvað við ætluðum að gera. Umsetning fyrirtækisins á loðnuafurðum er gríðarleg í Japan þar sem fyrirtækið er birgir 7-11 (Seven Eleven) verslunarkeðjunnar sem starfrækir mörg þúsund verslanir í landinu. Okada Suizan keypti einnig talsvert magn af makríl af vinnslustöðinni í fyrra sem fór inn á Japansmarkað. Ég geri fastlega ráð fyrir því að þau viðskipti aukist enn frekar,“ segir Binni.

Mun stöðugra umhverfi er í kringum makrílinn en aðrar uppsjávartegundir þótt verð hafi lækkað, ekki síst vegna aukinnar veiði í Norður-Atlantshafi. Á móti kemur að markaðurinn hefur stækkað, ekki síst í Asíulöndunum. Árið 2014 fór um 20% af öllum frystum uppsjávarafurðum  Vinnslustöðvarinnar til rússneskra aðila. Yfir nóttu lögðust þessi viðskipti af með viðskiptabanni Rússa. Það var fyrirtækinu til happs að hafa ráðið japanska sölumann þegar þetta gerðist. 2015 var 3,2% af heildarsölu Vinnslustöðvarinnar  til Japans en er nú komið í 11%. Hann annast einnig sölu til Kína sem hefur farið úr nánast engu í 5% af framleiðslu fyrirtækisins. Í Kóreu jókst salan úr 0,1% í rúmt 1% af heildarframleiðslunni.

Þessi mikla aukning í Asíu ásamt aukningu í Austur-Evrópu hefur vegið upp á móti töpuðum mörkuðum í Rússlandi í magni og Binni segir að verðin séu ekki lakari.

Svipað hefur verið uppi á teningnum í Austur-Evrópu. Vinnslustöðin réði rússneskan sölumenn og salan í Úkraínu hefur farið úr engu í 4% og í Georgía úr engu í 1,5% og allt telur þetta.

Þannig hefur salan á þessum tíma á frystum uppsjávarfiski farið úr 11% í 36% í Japan og í 12% í Kína. Á síðasta ári seldi Vinnslustöðin nálægt 20.000 tonnum af frystum uppsjávarfiski að verðmæti um 4 milljarðar króna. Til viðbótar bættust við um 1,5 milljarðar króna fyrir uppsjávarfisk sem fór til bræðslu.

Þarf að veiða hvali

„Þessi leið sem við fórum byggist á því að hafa menn á okkar snærum inni á markaðnum sem þekkja menningarheiminn og markaðinn og þessi aðferð hefur skilað árangri. Það var vissulega viðsnúningur þegar Rússar settu á viðskiptabann en við lentum ekki jafn illa í þessu og aðrir. Við höfðum tekið upp þá stefnu að selja ekki afurðirnir þangað nema gegn fyrirframgreiðslu eða staðgreiðslu. Við höfðum aflað okkur upplýsinga um fyrirtækin og vissum að þau voru mörg hver tóm að innan,“ segir Binni.

Varðandi loðnuveiðar segir Binni að útgerðin standi frammi fyrir breyttu göngumynstri en auk þess gríðarlegri samkeppni frá hvölum. Hann kveðst þess fullviss að hvalastofninn við Ísland éti hundruði þúsunda og jafnvel milljónir tonna af loðnu á hverju ári. Um þetta megi helst ekki ræða á opinberum vettvangi.

„Ég er hlynntur hófsömum hvalveiðum eins og framundan eru. Þær hafa engin áhrif á stofninn og ég held að þær hafi engin áhrif á markað Íslendinga fyrir sjávarafurðir. Það þarf að veiða hvali til að viðhalda jafnvægi í vistkerfinu.“

Saltfiskverð að hækka

Binni segir að fyrirtækið vinni mikið af þorski inn á Portúgals- og Frakklandsmarkað. Mjög hátt verð hafi verið á saltfiski árið 2007 en næstu árin á eftir hafi það næstum verið í frjálsu falli til ársins 2013. Á þessum tíma fer meðalverð á stórum fiski úr 9 evrum í fjórar evrur. 40% verðlækkun varð á íslenskum saltfiski frá 2011 til 2013. Ástæðan fyrir þessu var stóraukin veiði í Barentshafi með tilheyrandi framboðsaukningu inn á saltfiskmarkaðina. Á síðasta kvótaári dró úr veiðunum í Barentshafi sem hefur bætt stöðuna heima fyrir.

„Þorskmarkaðir líta núna ágætlega út almennt séð. Saltfiskverð hefur verið að hækka og verð á ferskfiskmarkaði í Frakklandi er í lagi þegar Norðmenn moka ekki vertíðarfiski þangað. Samdráttur í þorskveiðum í Barentshafi mun hafa áhrif þorskverðið og þrýsta því upp.“

Miklir erfiðleikar hafa hins vegar verið á markaði fyrir ufsa. Fyrir þremur árum hafi fengist 220 krónur fyrir ufsa en núna er verðið nær 70 krónum fyrir óslægðan fisk. Binni segir að ekki verði unað við svo lágt ufsaverð og sama eigi við um karfa en sá markaður hafi liðið hve mest fyrir verkfall sjómanna á síðasta ári. VSV hafi nánast eingöngu flutt út heilan karfa til Frakklands og Þýskalands og þegar afhendingar brugðust vegna verkfallsins hafi fiskkaupendur snúið sér að öðru og ódýrara hráefni. Ekki hafi verið auðvelt að vinna þennan markað aftur og enn vanti talsvert upp á að staðan sé með sama hætti nú og fyrir verkfall hvað eftirspurn varðar.

Ávinningurinn skattlagður

Binni segir mikið vanta upp á markaðssetningu á íslenskum fiski  á erlendum mörkuðum og atvinnugreininni hafi hvorki gefist tækifæri né svigrúm til þess. Eigi að fara út í markaðsátak á þessu sviði hlaupi kostnaður strax á hundruðum milljóna króna.

„Markaðsátak mun að sjálfsögðu auka verðmæti sjávarafurða en um leið og það gerist er tilhneigingin sú að skattaleggja sjávarútvegsfyrirtækin enn meira. Þetta hefur það í för með sér að fyrirtæki í greininni geta aldrei farið út í samstillt átak af þessu tagi. Slagurinn í pólitíkinni á Íslandi snýst ekki um að draga björg í bú heldur að skattleggja. .   Fólk snýr öllu á haus.  Tekjuaukning atvinnuveganna eykur tekjur ríksins í gegn um skattheimtu.  Þetta er ekki þannig að meira verði til skiptanna með aukinni skattheimtu, heldur þvert á móti.. Krafturinn er dreginn úr fyrirtækjunum og þau hafa engan ávinning af því að fara út í svona aðgerðir.“

Binni segir að í Portúgal sé almenn vitund um íslenskan saltfisk og gæði hans í samanburði við aðra framleiðendur. En þessu sé til dæmis ekki til að dreifa í Brasilíu, þar sem mikil hefð er fyrir saltfiskneyslu. Þar í landi standi menn í þeirri meiningu að saltfiskurinn komi frá Noregi eða Portúgal, jafnvel þótt um íslenskan fisk sé að ræða. Þannig sé full þurf á markaðsátaki víða um heim en aftur dragi það úr slagkrafti fyrirtækja eigi þau ávallt yfir höfði sér auknar álögur.

„Íslendingar eru góðir í því að veiða og vinnslutækninni hefur fleygt fram en þeir hafa ekki verið framarlega í markaðs- og sölumálum. En á greinin að fara út í það að fjárfesta í auknum markaðsaðgangi og hærra verði þegar eftir fylgir hærri skattlagning? Það er enginn ávinningur af þessu fyrir fyrirtækin.“