þriðjudagur, 21. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sama kjarnasveitin lengi um borð

Guðjón Guðmundsson
2. nóvember 2018 kl. 17:00

Mynd/Þorgeir Baldursson

Bjarna Ólafsson AK til veiða eftir 20 ára skoðun.

 Bjarni Ólafsson AK er gerður út frá Neskaupsstað þótt heimahöfnin sé Akranes. Tólf eru í áhöfn og skipta þeir á milli sín átta stöðugildum. Allir í áhöfninni utan tveir eru frá Akranesi. Lítið starfsmannavelta hefur verið á Bjarna Ólafssyni og sama kjarnasveitin verið þar um borð til margra ára.

75% af kolmunnanum innan færeyskrar

Runólfur Runólfsson skipstjóri var í brúnni þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn. Stímið hafði verið tekið á Síldarsmuguna. Spurst hafði af ágætis veiði en Runólfur sagði að veðrið hefði þó verið að stríða mönnum. Rúmlega 30 klukkutíma stím er í Smuguna og voru menn í ágætu veðri.

„Við erum búnir með kvótann sem er á skipinu og við veiðum þá í framhaldinu síld fyrir Síldarvinnsluna. Það hefur  verið ágæt síldveiði en það er þó aldrei á vísan að róa. Í stórum dráttum hefur upphafið á þessu fiskveiðiári verið svipað og undanfarin ár nema hvað veður hefur verið verra. Veðrið hefur verið harðara en áður.“

Runólfur segir þokkalegan gang hafa verið í veiðunum á fiskveiðiárinu. Í haust hefur að mestu verið róið á síld og makríl en mest af aflanum er  kolmunni á Íslandsmiðum og í færeysku lögsögunni. Bjarni Ólafsson fékk úthlutað tæplega 13.000 tonnum af kolmunna á síðasta fiskveiðiári og af öðrum skipum voru flutt rúmlega 9.000 tonn. Tæplega 24.000 tonn af kolmunna fengust og 75% af aflanum var innan færeyskrar lögsögu.

Eins og fram hefur komið hefur sjávarútvegsráðherra boðað að samningar við Færeyinga verði teknir upp. Hann hefur sagt að kolmunnaveiðar Íslendinga í færeyskri lögsögu séu of dýru verði keyptar. Runólfur segir mikla hagsmuni í húfi fyrir útgerð Bjarna Ólafssonar AK og aðrar uppsjávarútgerðir.

Sjái sóma sinn í betri leit

Runólfur segir að sér lítist illa á þau tíðindi að Hafrannsóknastofnun mæli ekki með loðnuveiðum að sinni. Það sé ekki hægt að sætta sig við það að huganlega rætist úr þessu eða að þetta reddist. Sjávarútvegsfyrirtækin þurfi að geta búið við meiri vissu en nú er boðið upp á.

„Menn ættu að leita betur og hið opinbera ætti að sjá sóma sinn í því að standa betur að loðnuleit. Afraksturinn af þessu öllu endar hvort eð er í ríkiskassanum. Þá er ég að tala um veiðigjöldin sem hafa breytt öllu umhverfinu og eykur samþjöppun í sjávarútvegi. Einstaklingarnir gefast bara upp með þetta á bakinu. Við bræðurnir fáum að vera með ennþá. En við höfum alltaf átt sérstaklega gott samstarf við Síldarvinnsluna í langan tíma. Samstarfið hófst fyrir um það bil 20 árum og aldrei borið skugga á. Þetta hefur gengið vel svona og Síldarvinnslan er ánægð með okkur held ég.“