þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sambland af fiskibáti og skemmtibáti

22. nóvember 2012 kl. 11:31

Helle Kristina (Mynd: Hreiðar Jóhannsson)

Siglufjarðar Seigur smíðar smábát fyrir danskan aðila

Siglufjarðar Seigur hefur lokið við smíði á smábáti fyrir danskan útgerðarmann í Hirtshals. Báturinn, sem hlotið hefur nafnið Helle Kristina HG 373, var afhentur á dögunum. Báturinn er smíðaður í undirverktöku fyrir Seiglu á Akureyri.

Helle Kristina er sambland af fiskibáti og skemmtibáti að því er Guðni Sigtryggsson, framkvæmdastjóri Siglufjarðar Seigs, sagði í samtali við Fiskifréttir. Báturinn er um 10 metra langur og 3,90 metra breiður. Í honum er Scania D13 vél, ZF gír og fullkomin siglingartæki frá Brimrún. Bógskrúfa er í bátnum og fellikjölur. Ganghraði var 21 míla í prufukeyrslu.

Báturinn er útbúinn til netaveiða fyrir bolfisk og makríl. Einnig er í honum færavindukerfi þannig að hægt verði að veiða makríl á færi. Þar sem um skemmtibát er að ræða er allur aðbúnaður um borð fyrsta flokks, bæði elduhús, svefnaðstaða og snyrting. Hægt er að búa í bátnum og ferðast í honum.