mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Samdráttur í neyslu sjávarafurða í Bandaríkjunum

21. september 2012 kl. 09:00

Laxaflak

Hver Bandaríkjamaður borðar 6,8 kíló af fiskmeti að meðaltali á ári

Bandaríkjamenn neyttu aðeins minna af sjávarafurðum á síðasta ári en á árinu þar á undan. Engu að síður sporðrenndi bandaríska þjóðin rúmum 2 milljónum tonna af sjávarafurðum á árinu 2011.

Bandaríkin eru reyndar annar stærsti markaður í heiminum fyrir sjávarafurðir, næstur á eftir Kína. Þessar upplýsingar koma fram á vef Seafood Source.

Meðalneysla á mann 6,8 kíló

Hver Bandaríkjamaður borðaði að meðaltali um 6,8 kíló af sjávarafurðum á árinu 2011 en árið 2010 var þessi tala 7,2 kíló. Þrátt fyrir þetta vörðu Bandaríkjamenn meiri peningum til kaupa á fiskmeti í fyrra en árið á undan. Í heild keyptu þeir fisk og aðrar sjávarafurðir fyrir 85,9 milljarða dollara (10.640 milljarða ISK) árið 2011 en fyrir 80,2 milljarða dollara árið 2010 og 75,5 milljarða árið 2009.

Sala sjávarafurða til neytenda fer aðallega fram í gegnum veitingastaði og mötuneyti ýmisskonar stofnana. Þar runnu út sjávarréttir fyrir 57,7 milljarða dollara. Næst á eftir kemur smásalan með 27,6 milljarða en önnur sala vegur mun minna.

Megnið innflutt

Megnið af sjávarafurðum sem Bandaríkjamenn neyta, eða 91%, er innflutt. Helstu sjávardýrin sem þeir leggja sér til munns eru rækja, lax og túnfiskur. Innflutningur á rækju nam 590 þúsund tonnum að verðmæti 5,2 milljarðar dollara (um 640 milljarðar ISK). Ferskur og frosinn atlantshafslax er í öðru sæti, 228 þúsund tonn að verðmæti 1,9 milljarðar dollara (234 milljarðar ISK). Túnfiskur er í þriðja sæti með 137 þúsund tonn.

Einnig mikill útflutningur

Bandaríkin eru einnig stór útflutningsþjóð á sjávarafurðum. Fluttar voru út um 1,5 milljónir tonna af sjávarafurðum þaðan á síðasta ári fyrir 5,4 milljarða dollara (665 milljarða ISK) sem er 1,1 milljarða dollara aukning frá árinu 2010.

Mest var flutt út af kyrrahafslaxi, eða 167 þúsund tonn fyrir 622 milljónir dollara (76 milljarðar ISK). Surimi og humar koma þar á eftir.