miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sameiginleg áskorun Fiskistofu og greinarinnar

Guðsteinn Bjarnason
15. ágúst 2020 kl. 09:00

Ögmundur H. Knútsson, fiskistofustjóri. MYND/Aðsend

Íslendingar eigi að vera leiðandi á heimsvísu, ekki bara í veiðum og vinnslu heldur í eftirliti sem jafnframt styrkir markaðsvægi íslensks sjávarútvegs. Strax í haust er stefnt á tilraunaverkefni með myndavélaeftirlit.

Ýmis spjót hafa staðið á Fiskistofu síðustu misserin. Hún hefur verið gagnrýnd fyrir að sinna ekki nægilega vel ýmsu eftirliti með umgengni um auðlindina. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá í janúar 2019 segir að eftirlit Fiskstofu með vigtun sjávarafla sé takmarkað og skili varla tilætluðum árangri, eftirlit með brottkasti sé veikburða og ómarkvisst og ekki verði séð að Fiskistofa kanni hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum séu innan þeirra marka sem skilgreind eru í lögum.

Í tengslum við útkomu skýrslunnar vakti Ríkisendurskoðandi athygli á „mikilvægi þess að Fiskistofa hafi nauðsynleg úrræði og aðföng til að sinna eftirliti með skilvirkum og árangursríkum hætti með tilætluðum fælingar- og varnaðaráhrifum. Skilgreina þarf skýr árangursmarkmið um eftirlitshlutverk Fiskistofu og grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að þeim verði náð.“

Nú í sumar skilaði verkefnastjórn um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni skýrslu þar sem gerðar voru fjölmargar tillögur til úrbóta.

Margar góðar ábendingar

Ögmundur Knútsson tók í vor við embætti Fiskistofustjóra og hann segist fagna þessari skýrsluúttekt. Þar séu margar góðar ábendingar og jákvætt að fá ytri rýni á þau störf sem Fiskistofa sinnir og það lagaumhverfi sem hún er að vinna í.

„Núna snýr þetta svolítið að lagaumhverfinu. Við höfum verið að vinna að þáttum sem lúta að því að bæta eftirlitið,“ segir Ögmundur og nefnir dæmi. „Það er verið að taka upp áhættumat varðandi eftirlitið, hvar er mesta áhættan. Við höfum verið að skoða og reyna nýjar leiðir við eftirlit t.d með langdrægum sjónaukum og með drónum. Við höfum einnig verið í góðu samstarfi við Landhelgisgæsluna um eftirlit.“

Hann segir það ljóst að við þurfum að efla okkur, og þá „ekki bara Fiskistofa heldur sjávarútvegurinn í heild sinni. Við þurfum að vinna markvissara að því að taka upp sjálfvirkni við eftirlitið: Í formi myndavélaeftirlits, í formi lifandi samkeyrslu á gögnum og markvissari tölfræði greiningu á gögnum sem safnað er. Ég held að þetta sé sameiginleg áskorun okkar og greinarinnar, hvernig við getum styrkt þetta og eflt.“

Slíkt hafi beinlínis markaðslegt gildi fyrir sjávarútveginn.

„Þetta er ekki bara fyrir okkur að tryggja að umgengnin um auðlindina sé sem best og ekki sé verið að svindla, sem er svo sem það sem við horfum á, heldur þurfum við líka að geta sýnt fram á það og sannað þannig að kaupendur og neytendur íslenskra sjávarafurða sjái að íslenskum sjávarafurðum sé treystandi. Þetta eru þær áskoranir sem ég sé fram á að við þurfum að tækla og við þurfum að gera það í góðu samstarfi við greinina.“

Ræða þarf kostnaðinn

Bættu eftirliti fylgir þó óhjákvæmilega viðbótarkostnaður sem mæta þarf með einhverjum hætti.

„Þegar við erum farin að tala um myndavélareftirlit þá er ljóst að í því er umtalsverður kostnaður. Þá þarf líka að eiga sér stað umræða um hver ber hvaða kostnað. Mér hefur fundist viðkvæðið þegar við tölum um myndavélaeftirlit vera svolítið að þá sé stóri bróðir farinn að anda ofan í hálsmálið á öllum, fylgjast með öllu. Það má náttúrlega ekki vera þannig, við þurfum að virða persónuverndarlög sem eru í gildi. En auðlindin er mikilvæg og sjávarútvegur er að nýta auðlind sem er í almanna eigu þannig að við verðum að tryggja góða umgengni þar og gagnsæi um nýtingu á auðlindinni. Ég held að greinin sé alveg til í að vinna með okkur í þessu og þróa þetta. Við þurfum bara að taka þessa umræðu um kostnað og aðra þætti er lúta að aukinni sjálfvirkni í eftirliti.“

Hann er spurður hvort Fiskistofa geti hafið þessa vinnu upp á eigin spýtur með því sem hún hefur yfir að ráða nú þegar, eða hvort bíða þurfi eftir útspili frá ríkinu, bættu lagaumhverfi eða auknu fjármagni.

„Nú veit ég að það er farinn af stað vinnuhópur um endurskoðun á lagaumhverfinu og refsiumhverfinu sem ráðuneytið setti af stað núna í sumar, þannig að það er von á að það komi eitthvað frá þeim hópi í haust. Varðandi samstarf við greinina þá er það eitthvað sem hefur verið í gangi og við munum taka það samtal markvissar í haust, og fara í tilraunaverkefni sem lúta að myndavélareftirliti. En þetta er náttúrlega langhlaup, ekki eitthvað sem við sviptum okkur í og bara afgreiðum.“

Fyrstu skrefin

„Ég tel að við getum alveg byrjað að taka fyrstu skrefin í þessu og fetað okkur áfram. Við ætlum í innri vinnu hjá okkur við að taka upp áhættumatsstaðal. Dekkun á hefðbundnu eftirliti verður alltaf takmörkuð, en það er klárt að hefðbundið eftirlit þarf að vera til staðar. Fælingarmáttur þess verður að vera til staðar, og með því er hægt að fylgja eftir þar sem áhætta er til staðar. Ég held samt að til þess að ná betur yfir eftirlit með greininni þá þurfum við að horfa mun markvissara á rafræna möguleika, myndavélar, tölfræðilegt eftirlit, greiningar og því um líkt,“ segir Ögmundur.

„Nú ég hef þá trú að flestir sem eru í greininni séu ekki vísvitandi að svindla og brjóta af sér, þótt auðvitað séu svartir sauðir eins og í öllum greinum. Ég held að þetta þurfi að koma til viðbótar við hefðbundið eftirlit. En þó við aukum við hefðbundið eftirlit verður dekkunin aldrei það mikil að við getum náð yfir það allt. Til þess þurfa að koma nýjar leiðir. Ég held að við og greinin eigum að hafa það sameiginlega markmið að vera leiðandi á heimsvísu, ekki bara í veiðum og vinnslu heldur í eftirliti sem getur leitt til þess að auka markaðsvægi íslensks sjávarútvegs.“