laugardagur, 6. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Samherjamálið mikil vonbrigði

Guðsteinn Bjarnason
28. nóvember 2019 kl. 08:00

Árni M. Mathiesen er einn af aðstoðarframkvæmdastjórum FAO og stýrir fiskveiði- og fiskeldisdeild stofnunarinnar. MYND/GB

Árni Mathiesen, einn af aðstoðarframkvæmdastjórum FAO, segir það „ofboðslega svekkjandi að sjá Namibíu, Ísland og Noreg” bendluð við stórfellda spillingu.

Hann segir FAO áratugum saman hafa unnið gegn ólöglegri starfsemi í sjávarútvegi þannig að beiðni íslenskra stjórnvalda falli vel að markmiðum FAO.

Í framhaldi af frásögnum Kveiks og Stundarinnar af framferði Samherja í Namibíu hefur ríkisstjórn Íslands lýst því yfir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra muni hafa „frumkvæði að því að Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) vinni úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir.”

Ýmsir hafa furðað sig á því að leitað sé til FAO, en þar er Árni Matthías Mathiesen fyrrverandi sjávarútvegsráðherra við stjórnvölinn.

Sjálfur segir Árni þessa beiðni falla vel að starfsemi FAO og algengt sé að ríki komi með sambærileg erindi til stofnunarinnar.

FAO muni þó ekki taka að sér neitt löggæsluhlutverk, frekar en á öðrum sviðum. Hins vegar hafi FAO um langa hríð unnið að því að bæta umgengni við hafið og draga úr ólöglegri starfsemi tengdri veiðum og fiskeldi.

„Af þessum ólöglegu hlutum höfum við undanfarin ár fyrst og fremst verið að einbeita okkur að þessum IUU-fiskveiðum,” en IUU er skammstöfun sem stendur fyrir „illegal, unreported and unregulated fisheries, eða ólöglegar, óskráðar og stjórnlausar veiðar.

Sú vinna leiddi meðal annars af sér alþjóðasamning um hafnríkisaðgerðir (Port State Measures), sem undirritaður var í Róm árið 2009 og tók gildi sjö árum síðar.

Ekki í löggæslu
„Ísland hefur verið einn af helstu stuðningsaðilum okkar í þeirri vinnu, var mikill talsmaður þess að þessi samningur yrði gerður og með þeim fyrstu sem skrifuðu undir samninginn.”

Hann segir FAO vera hvað þetta varðar í samstarfi við alþjóðastofnanir og samtök, þar á meðal Fíkniefna- og afbrotaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNODC) og samtökin Fisheries Transparency Initiative (FiTI).

„Okkar hlutverk er að búa til reglur og staðla um það hvernig eigi að gera hlutina og gera þá rétt, þjálfa starfsmenn í hinum ýmsu löndum í vinnubrögðum og hjálpa þeim að koma upp upplýsingakerfum. Þannig að það er ýmislegt sem við höfum verið að gera þótt við séum ekki í hlutverki löggæslu eða lögreglu.”

Núna allra síðustu ár hefur FAO síðan verið að skoða viðskipti með þjónustu í sjávarútvegi, en undir það falla sumar tegundir af viðskiptum með kvóta þar helst er hætta á spillingu og mútum.

„Þar hefur komið til tals að setja staðla um hvernig svona viðskipti eiga sér stað.”

Hár þröskuldur
„Spilling er alveg óskaplega hár þröskuldur fyrir framþróun í ríkjum þriðja heimsins,” segir Árni. „Þann þröskuld væri hægt að lækka umtalsvert ef það vantaði mótaðilann, sem oftast eru þá stórfyrirtæki og bankar á Vesturlöndum. Við sjáum að í þessu meinta svindli fer þetta í gegnum bankakerfi sem er síðan meira og minna tengt hinu vestræna bankakerfi."

Hann segir að engar af þessum fjármálamiðstöðvum á aflandseyjum geti staðið einar og sér.

„Þær þurfa að vera í tengslum við almenna bankakerfið til að ganga upp. Þannig að þetta tiltölulega litla mál, sem þó er stórt náttúrlega fyrir lönd eins og Ísland og Namibíu sem hafa verið tiltöluega hátt skrifuð í fiskveiðum, tengist inn í þessi risastóru fjármálaspillingarmál sem hafa komið upp í heiminum.”

Árni segir það „ofboðslega svekkjandi að sjá Namibíu, Ísland og Noreg reyndar líka í þessu.”

Hann undirstrikar þó að staða fiskveiðistjórnunar í Namibíu sé nokkuð góð, „sérstaklega miðað við þetta svæði heimsins. Ef við horfum yfir síðustu 25 árin hefur staða fiskistofna almennt batnað mjög mikið á norðurhveli jarðar og veiðiálag minnkað mjög mikið, en hins vegar hefur veiðiálagið og staða stofnanna versnað mjög mikið á suðurhveli jarðar.”

Jafnframt hafi sala og flutningur sjávarafurða fá suðurhveli til norðurhvels aukist mjög mikið.

„Sumir halda því fram að norðurhvelið hafi verið að flytja út fiskveiðivandamálin sín til suðurhvelsins og meðal annars í gegnum þessi viðskipti með aflaheimildir. Þetta geti haft alvarleg áhrif fyrir stöðu fiskistofna. Þannig að hvernig að svona málum er staðið er auðvitað eitthvað sem við í FAO myndum láta okkur varða og í fullkomnu samhengi við meginmarkmið stofnunarinnar.”