sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Samherji greiðir starfsfólki í landi 300 þús. kr. launauppbót

6. desember 2011 kl. 15:07

Fiskvinnsla Samherja á Dalvík

Kemur til viðbótar umsaminni 64 þúsund króna desemberuppbót

Samherji hf. greiðir starfsfólki sínu í landi 300 þúsund króna launauppbót nú í desember, til viðbótar umsaminni 64 þúsund króna desemberuppbót. Samherji tvöfaldaði jafnframt orlofsuppbót starfsmanna í maí og greiðir því 360 þúsund krónur á hvern starfsmann umfram kjarasamninga á árinu.

Starfsmenn sem njóta þessarar  launauppbótar nú eru um 450 talsins. Þeim fjölgaði um 150 á árinu við kaup Samherja  á Útgerðarfélagi Akureyringa.

,,Rekstur félagsins hefur gengið vel og starfsmenn hafa skilað afburða góðu verki,” segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja á vef fyrirtækisins. ,,Það er mjög ánægjulegt í ljósi þess að íslenskur sjávarútvegur er í harðri alþjóðlegri samkeppni á matvælamörkuðum. Til dæmis hafa þorskveiðiheimildir í Barentshafi aukist verulega að undanförnu og framleiðsla á laxi í Noregi og Chile vaxið mjög mikið en þetta eru þær tegundir sem landvinnsla okkar er í hvað mestri samkeppni við.
Að auki er umræðan um sjávarútvegsmál á Íslandi mjög neikvæð í garð þeirra sem þar starfa og á sér ekki hliðstæðu hjá samkeppnisþjóðum okkar. Þessi umræða berst að sjálfsögðu út fyrir landsteinana og samkeppnisaðilar nota hana orðið gegn okkur á mörkuðunum. Við höfum því þurft að leggja enn harðar að okkur en áður til að verja stöðu okkar þar.”