
Breska útgerðarfyrirtækið UK Fisheries, sem Samherji á helmingshlut í, hefur keypt á skömmum tíma tvö sjávarútvegsfyrirtæki í Evrópu, Euronor og Pesquera Ancora, og helmingshlut í því þriðja. Þessi fyrirtæki gera út samtals um 16 skip að togurum UK Fisheries meðtöldum fyrir utan nokkra rækjubáta, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Nýjasta fjárfesting UK Fisheries er kaup á helmingshlut í franska fyrirtækinu Compagnie des Peches Saint Malo. Franska fyrirtækið er með fjölþætta starfsemi, að því er Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri sjávarútvegssviðs Samherja, sagði í samtali við Fiskifréttir.
Compagnie des Peches Saint Malo gerir út og á hlut í 3 skipum. Flaggskip fyrirtækisins er 90 metra frystitogara, Joseph Roty 2, sem veiðir og vinnur kolmunna í marning. Einnig gerir félagið út frystitogara sem veiðir með fiskitrolli í Barentshafi og á hlut í rækjutogara á móti dönskum aðila. Þá rekur það 15 rækjubáta í Gvæjana á norðausturströnd Suður-Ameríku. Fyrirtækið fullvinnur marning í neytendaumbúðir í verksmiðju í Saint Malo í Frakklandi og þar er einnig rækjuvinnsla.
UK Fisheries Ltd. er í helmingseigu Onward Fishing (bresks dótturfélags Samherja) og hollenska fyrirtækisins Parlevliet & Van Der Plas.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.