mánudagur, 17. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Samherji selur sjávarafurðir fyrir 230 milljónir hvern virkan dag

12. maí 2010 kl. 10:27

Skip Samherja veiða 390.000 tonn af fiski árlega, að stærstum hluta utan íslenskrar lögsögu. Fyrirtækið selur sjávarafurðir fyrir 230 milljónir króna að meðaltali á hverjum virkum degi.

Þetta kom fram í erindi Gústaf Baldvinsson, framkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood, sölufyrirtækis Samherja í Bretlandi, á kynningarfundi á Akureyri í gær. Allri starfsemi Samherja er stýrt frá Akureyri en félagið er með starfsemi víðs vegar um heiminn. Fjölbreyttar afurðir Samherja, allt frá sjófrystum bolfiski til ferskrar bleikju úr eldisstöðvum fyrirtækisins, eru seldar til 45 landa.

Gústaf sagði að Ísland ætti í harðri samkeppni á mörkuðum fyrir sjávarafurðir. Á meðal helstu samkeppnisaðila væru t.d. Norðmenn sem byggju við mikinn stöðugleika og öflugan stuðning stjórnvalda í markaðsstarfi og sölutryggingu afurða. „Við vitum þetta - en það er misskilningur að heimurinn viti að okkar fiskur sé langbestur. Við erum litlir í alþjóðlegu samhengi," sagði Gústaf og vísaði til umfangs íslensks sjávarútvegs.

Í erindi Gústafs kom fram að Samherji væri orðið eitt af stærstu og þekktustu sjávarútvegsfyrirtækjum í Evrópu og hefði áunnið sér orðstír fyrir gæði, afhendingaröryggi, vöruúrval og þjónustu. Hann sagði jafnframt að hugtakið ábyrgar fiskveiðar væri orðið að skilyrði kröfuharðra kaupenda sjávarafurða um heim allan.

Fundurinn í gær var sá fjórði sem Samherji heldur um atvinnumál í Eyjafirði. Frá þessu er skýrt á vef LÍÚ.