mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Samherji: Skiptaverð fyrir karfa yfir meðalverði

29. mars 2012 kl. 17:35

Karfi í ís

Skorar á Seðlabankann að leggja fram rökstuðning fyrir húsleitinni.

Meðalskiptaverð til sjómanna á karfa á íslenskum fiskmarkaði í fyrra á tímabilinu apríl til nóvember var 202 kr/kg. Skiptaverð sjómanna á Samherjaskipinu Björgvin EA var á sama tíma 221 kr/kg. Fullyrðingar um undirverð, brot á kjarasamningum og gjaldeyrislögum eru fráleitar, segir í fréttatilkynningu frá Samherja.

Síðan segir: ,,Samherji selur mikið magn afurða sinna í gegnum sölufyrirtækin sín, Ice Fresh og Seagold. Verðlagning í þeim viðskiptum er í alla staði rétt og eðlileg og engum gjaldeyri haldið eftir sem skila ber.  Karfaviðskiptin sem sjónvarpsþátturinn Kastljós og Seðlabankinn virðast telja tortryggileg nema um það bil 0,1% af veltu Samherja. Þau viðskipti svo og öll önnur viðskipti Samherja við dótturfélög sín eru fullkomlega lögleg og í sama farvegi og þau voru löngu fyrir gjaldeyrishöftin og Seðlabankinn hefur kynnt sér. Eftir þessum reglum hefur verið farið í hvívetna.“

 ,,Svo harkalegar og ómálefnalegar aðgerðir af hálfu Seðlabanka Íslands hljóta að vera einsdæmi og lýsum við fullri ábyrgð á hendur þeim sem að þeim standa‘‘, segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja hf. „Ég skora á Seðlabankann að leggja fram rökstuðning sinn fyrir húsleitinni til að við getum lagt okkar að mörkum til að upplýsa Seðlabankann um þá þætti sem hann vill fá skýringar á og um leið freistað þess að takmarka tjón okkar af þessari harkalegu aðgerð.“

Sjá nánar á vef Samherja.