þriðjudagur, 18. janúar 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Samkeppnisdómstóll í Chile ráðleggur uppboð á kvótum

16. febrúar 2011 kl. 13:38

Ansjósa er einn mikilvægasti uppsjávarfiskurinn undan ströndum Chile og Perú.

Dómstóllinn telur að samþjöppun á aflaheimildum uppsjávarfisks og eignatengsl milli veiða og fiskeldis raski frjálsri samkeppni.

Kvótum uppsjávarfisks í Chile er úthlutað á tíu ára fresti og rennur núverandi kvótatímabil út á næsta ári. Samkeppnisdómstóll landsins hefur ráðlagt að núverandi fyrirkomulagi verði breytt og kvótarnir boðnir upp.

Forsendan fyrir því er sögð sú að aflaheimildir í uppsjávarfiski hafi að mestu safnast á sex til sjö fyrirtæki og sum þeirra stundi jafnframt umfangsmikið fiskeldi. Bendir dómstóllinn á að 20% af laxaútflutningi frá Chile séu á hendi fyrirtækja sem einnig stundi uppsjávarveiðar. Lýsir dómstóllinn áhyggjum sínum af því að þetta trufli frjálsa samkeppni og verðmyndun á markaði fyrir uppsjávarfisk.

Þetta er í fyrsta sinn sem skírskotað er til samkeppnislaga í Chile þegar kemur að verðmyndun á uppsjávarfiski en stjórnvöld þurfa að leggja blessun sína yfir þessar ráðleggingar dómstólsins svo þær verði að veruleika.

Frá þessu er skýrt í norska sjávarútvegsblaðinu Fiskeribladet/Fiskaren og jafnframt sagt að norska fyrirtækið Austervoll Seafood sem hefur ráðstöfunarrétt yfir veiðikvótum í Chile kunni að missa þá.

Chile er næststærsta framleiðsluland fiskimjöls í heiminum, næst á eftir Perú. Í Chile eru framleidd meira en 14% af heimsframleiðslu fiskimjöls og 18% af heimsframleiðslu fisklýsis. Perú og Chile til samans framleiða um helminginn af fiskimjöli og -lýsi í heiminum.