laugardagur, 19. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Samkomulag um ofveiði og ósjálfbærni

13. mars 2014 kl. 12:01

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Spurning hvort Íslendingar ættu að taka þátt í slíku, segir framkvæmdastjóri LÍÚ

„Það er spurning um það hvort Íslendingar ættu að taka þátt í samkomulagi sem gengur út á ofveiði og ósjálfbærni." Þetta segir Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna á vefsíðu samtakanna. 

Kolbeinn segir að í ljósi fyrri yfirlýsinga Evrópusambandsins sæti það furðu að samkomulag hafi náðst til næstu fimm ára um veiðar sem séu nær 18 prósentum umfram ráðgjöf ICES eða 1.047.000 tonna afla í ár. Áherslan á sjálfbærar veiðar sé ekki meiri en svo að Noregur og ESB ætli sér til saman 890 þúsund tonn af makríl sem sé allur ráðlagður heildarafli þessa árs. 

„Þá á eftir að gera ráð fyrir veiðum Íslendinga, Grænlendinga og Rússa," segir Kolbeinn. Hann telur ástandið háalvarlegt og óttast að veiði sem er komin svo langt uppfyrir ráðgjöf geti skaðað makrílstofninn mjög og jafnvel orðið til þess að hann hætti að ganga á Íslandsmið sem hefði í för með sér gríðarlegan tekjubrest fyrir íslenskt samfélag en heildaraflaverðmæti makríls á síðasta ári nam um 22 milljörðum.