föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sammi selur á leið í fiskbúðina

24. nóvember 2017 kl. 15:00

Lukkudýr Wicklow á Írlandi

Á hvaða leið er selurinn sem mjakar sér yfir götunni á myndinni hér að ofan? Rakleiðis í fiskbúðina hinum megin götunnar.

Þetta gerist með reglulegum hætti í bænum Wicklow á Írlandi þar sem Sammi selur er fóðraður þrisvar sinnum á dag. Hann fer líka eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlunum þegar aðrir vegfarendur sem eiga ekki von á honum rekast á hann og „pósta“ hann.

Sammi selur varð frægur enn á ný í þessari viku þegar mynd af honum var birt á samfélagsmiðli með textanum: „Ég varð vitni að því þegar þessi risavaxni selur var rekinn út úr fiskbúðinni í Wicklow“. Þessi færsla barst á ljóshraða um netið.

Daglegur gestur

Þegar grannt er skoðað má sjá á myndinni heimagert skilti þar sem varað er við „sel á ferð“ sem bendir auðvitað til þess að Sammi selur hafi áður farið í svona spássitúra.

Hann hefur reyndar verið daglegur gestur í fiskibúðinni allt frá árinu 2012 og er nú lukkudýr bæjarins. Góð sala í stuttermabolum í Wicklow sem þeir kaupa helst sem hafa rekist á Samma á leið sinni í fiskibúðina.

Alan Hegarty, eigandi fiskbúðarinnar, segir að margir telji að Sammi sé taminn selur en svo sé þó alls ekki. „Þegar öllu er á botninn hvolft er hann villidýr og þannig viljum við hafa hann.“

 

Svo rammt kveður að vinsældum Samma að hann hefur sett upp sína eigin Fésbókarsíðu.