þriðjudagur, 18. maí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Samningsleysið skaðar orðsporið

Guðsteinn Bjarnason
17. október 2020 kl. 09:00

Verkefni strandríkjafundanna er að semja um veiðar á makríl, kolmunna og norsk-íslensku síldinni, auk úthafskarfa. Mynd/Þorgeir Baldursson

Í næstu viku hefjast hinar árlegu strandríkjaviðræður um veiðar úr uppsjávarstofnum Norðaustur-Atlantshafsins.

Í næstu viku hefjast hinar árlegu strandríkjaviðræður um veiðar úr uppsjávarstofnum Norðaustur-Atlantshafsins. Kristján Freyr Helgason, aðalsamningamaður Íslands, segir breytta stöðu Breta auka á óvissuna.

„Það sem er nýtt núna er að Bretar eru bæði komnir út úr Evrópusambandinu og orðnir aðilar að NEAFC,“ segir Kristján Freyr Helgason, aðalsamningamaður Íslands í viðræðum strandríkjanna við Norðaustur-Atlantshaf.

„Þeir eiga eftir að semja við Evrópusambandið um málefni fiskveiða, og við vitum ekki hvort útganga þeirra úr Evrópusambandinu felur í sér að þeir virði hlutfallslegan stöðugleika eða hvort þeir hafi einhver önnur áform um aukningu. Þau spil sjáum við ekki fyrr en fundirnir byrja.“

Fulltrúar Íslands, Grænlands, Færeyja, Noregs, Bretlands, Evrópusambandsins og Rússlands munu þetta árið hittast á fjarfundum, sem Kristján segir óneitanlega flækja málin enn frekar.

„Það eitt og sér er ekki að mínu mati að hjálpa í þessum kringumstæðum. Við erum að vinna frá Grænlandi í vestri til Rússlands í austri og þá er tímamunur. Það verður nýtt að fást við þetta með þessum hætti.“

Óvissa um makrílinn

Ný staða er einnig komin upp hvað hvað makrílinn varðar því hann lét vart sjá sig innan íslensku landhelginnar þetta árið. Kristján Freyr segir þetta þó ekki eiga að breyta neinu varðandi samningafundina framundan. Vísindamenn ICES treysti sér ekki til að fullyrða að þessi breyting sé komin til að vera.

„Við höfum áður séð makrílinn fara niður og koma aftur upp.“

Verkefni strandríkjafundanna er að semja um veiðar á makríl, kolmunna og norsk-íslensku síldinni, auk úthafskarfa. Árum saman hafa engir heildarsamningar verið í gildi um uppsjávarveiðarnar. Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar hafa verið með samning um makrílveiðar, en hvorki Íslendingar, Grænlendingar né Norðmenn hafa getað fengið aðild að þeim samningi.

„Þeir læsa sig inni á 84,4 prósentum og ætla Íslendingum, Rússum og Grænlendingum að skipta með sér afgangnum, sem eru 15,6. Við Íslendingar höfum ítrekað verið að reyna að komast inn í samning og leita leiða til þess.“

Óþolandi ástand

Afleiðingin af samningsleysi er síðan sú að árum saman hefur heildarveiðin úr þessum stofnum verið töluvert umfram ráðgjöf. Þar á ofan hefur þetta í för með sér að MSC-vottun veiðanna mun falla.

„Við erum auðvitað mjög meðvituð um að vottun á makríl var dregin til baka og að óbreyttu ástandi, semji ekki strandríkin núna á þessu ári, þá mun vottun MSC á síld og kolmunna falla líka,“ segir Kristján Freyr en tekur þó fram að það séu ekki stjórnvöld sem biðja um vottun heldur sé það atvinnugreinin og vottunaraðilar sem standa að því.

„Við höfum vissulega áhyggjur, ekki endilega af því að MSC-vottun falli niður heldur frekar af því af hverju hún er að falla niður. Hún er að falla niður af því allt er í ólestri með stjórnun veiðanna. Þetta er náttúrlega alveg óþolandi ástand og búið að vara alltof lengi, að stofnarnir eru veiddir langt umfram ráðgjöf. Þetta hefur líka áhrif á orðspor þeirra þjóða sem stunda ábyrgar veiðar.“

Fréttin birtist upphaflega í Fiskifréttum 15. október sl.