mánudagur, 17. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Samtök og áhugafélög fái stuðning

5. nóvember 2019 kl. 11:00

Fjölmörg dæmi eru um að gömul skip og bátar grotni niður þó varðveislugildi þeirra sé óumdeilt. Mynd/HAG

Varðveisla skipa og báta á Alþingi

Fyrir Alþingi liggur tillaga til þingsályktunar um verndun og varðveislu skipa og báta. Þar er lagt til að  mennta- og menningarmálaráðherra skipi starfshóp sem geri úttekt á því hvernig staðið er að verndun og varðveislu skipa og báta og geri tillögur að úrbótum.

Málið er lagt fram af tólf þingmönnum Miðflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Þess er farið á leit í tillögunni að starfshópurinn taki saman yfirlit yfir skip og báta sem hafa menningarlegt og atvinnusögulegt gildi, óháð aldri, og endurskoði aldursmörk skipa og báta samkvæmt lögum um menningarminjar. Starfshópnum verði jafnframt falið að finna fjárstreymis- eða fjáröflunarleiðir til verkefnisins og móti reglur um meðhöndlun fjármagnsins.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir að tilgangur tillögunnar sé „að gera úttekt á því hvernig staðið hefur verið að verndun og varðveislu skipa og báta, m.a. með hliðsjón af lögum um menningarminjar, auk þess að taka saman yfirlit yfir skip og báta sem talin eru hafa menningarlegt og atvinnusögulegt gildi, óháð aldri, í þeim tilgangi að fá heildarmynd af stöðunni. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að starfshópurinn geri tillögur að úrbótum. Mikilvægt er að starfshópurinn hafi til hliðsjónar hvort tilefni sé til að verndun skipa og báta sem hafa varðveislugildi verði sambærileg og verndun byggingararfs.“

Eins segir að mikilvægt sé að viðhalda þekkingu á smíði gamalla báta og skipa.

„Þá hafa fjölmörg samtök og áhugafélög tekið að sér að viðhalda skipum og bátum og má telja að án aðstoðar þeirra hefði skipum og bátum, sem í eru fólgin menningarverðmæti og arfleifð handverks, verið eytt. Að mati flutningsmanna er mikilvægt að veita þessum samtökum stuðning.“