sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Samtök sjávarútvegs í Noregi óttast hrinu gjaldþrota

16. apríl 2008 kl. 12:51

Heildarsamtök í sjávarútvegi í Noregi (Norges Fiskerlag) hafa skorað á norska seðlabankann að hækka ekki stýrivexti á fundi stjórnar bankans sem haldinn verður í næstu viku. Óttast samtökin hrinu gjaldþrota styrkist krónan meir í kjölfar vaxtahækkana.

Eins og fram hefur komið í Viðskiptablaðinu hefur norska krónan styrkst umtalsvert að undanförnu gagnvart evru, pundi og dollar. Sjávarútvegssamtökin telja að frekari styrking krónunnar grafi undan samkeppnisstöðu norskra sjávarafurða erlendis.

Þá er talin vera hætta á því að sama ástand skapist og árið 2002 þegar norska krónan styrktist skyndilega. Norskur sjávarútvegur lenti þá í miklum erfiðleikum og margar fiskvinnslur lögðu upp laupana.

„Þegar útflutningstekjur drógust verulega saman á sínum tíma varð fjöldi fiskverkenda gjaldþrota og útgerðin stóð einnig frammi fyrir miklum vanda. Við áttum marga fundi með stjórnvöldum um þessa vá og fengum aðeins þau svör að ekkert væri hægt að gera. Síðar kom í ljós að bæði stjórnvöld og seðlabankinn höfðu gripið allt of seint til aðgerða,“ segir talsmaður sjávarútvegssamtakanna í samtali við norska blaðið Fiskaren og bætir því við að mörg aðvörunarljós blikki núna sem bendi til þess að sagan frá árinu 2002 geti endurtekið sig verði ekkert að gert.