sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sandsílastofninn ekki að hjarna við

7. júní 2018 kl. 17:00

Svæðin fjögur sem eru vöktuð af Hafrannsóknastofnun.

Lítil nýliðun við sunnan- og vestanvert landið síðastliðin 12-13 ár


Valur Bogason sjávarvistfræðingur er annar tveggja starfsmanna í starfsstöð Hafrannsóknastofnunar í Vestmannaeyjum. Hann hefur stundað rannsóknir á sandsílastofninum sem hefur verið í lægð undanfarin tólf til þrettán ár sem meðal annars hefur leitt til lélegrar viðkomu sjófugla eins og lunda. Hann segir lítil merki þess að stofninn sé að hjarna við.

gugu@fiskifrettir.is

Valur hefur fylgst með ástandi á sandsíli við sunnan- og vestanvert landið frá árinu 2006.

„Stofninn hefur ekki rétt úr kútnum ennþá og drifkrafturinn á bak við ástand stofnsins má rekja til breytinga í umhverfinu eins og hækkandi hitastigi sjávar. Óljóst er hvað valdið hefur hruni stofnsins en stóra spurningin sem við höfum verið að reyna að svara er hvort hægt sé að benda á einhvern einn sökudólg í þessum efnum. Hugsanlega hafa þessar breytingar í umhverfinu haft áhrif á klak og lífslíkur sílanna fyrsta árið. Aukið afrán og samkeppni um fæðu er annar mögulegur orsakavaldur en mjög stórir árgangar ýsu voru að vaxa upp er vart verður við nýliðunarbrest hjá sandsílinu.  Koma makríls að Íslandsströndum einn þáttur í þessu. Þetta er stór stofn en hann er þekktur afræningi á síli og er í samkeppni við það um fæðu. En árin 2005 og 2006 varð nýliðunarbrestur hjá sandsíli og á þeim tíma var makríll ekki farinn að ganga hingað að neinu ráði inn á grunnslóð sem bendir til að hann sé ekki eini sökudólgurinn,“ segir Valur.

Fjögur svæði vöktuð

Farið var í leiðangra á fjögur svæði samfellt frá árinu 2006 til 2013 í byrjun júlí  til að kanna ástand stofnsins. Ekki var farið í leiðangra árin 2014 og 2015 en árið 2016 voru skoðuð tvö af fjórum svæðum. Árið 2017 var þessi leiðangur hluti af svokölluðu flatfiskralli sem er að haustlagi og því á öðrum árstíma en fyrri leiðangrar. Farið verður öðru sinni í haust að kanna ástand sandsílastofnsins í flatfiskrallinu.

„Það var ekki að sjá síðastliðið haust að það væri einhver viðsnúningur í stofninum. Ýmis ummerki úr fæðugögnum stofnunarinnar benda til þess að stofninn hafi verið farinn að dala strax upp úr síðustu aldamótum en 2005 og 2006 verður nýliðunarbrestur og stofninn hefur verið í lélegu ástandi upp frá því. Þrátt fyrir að sum ár hafi orðið vart við talsvert af seiðum, sérstaklega vestanlands þá hafa þau ekki skilað sér árið eftir sem eins árs fiskur. Þó kom þokkalegur árgangur 2007 og var hann uppistaðan í árganginum árin á eftir en árganganir á eftir voru lélegirog því er ástandið enn lélegt hjá sandsílinu sunnan- og vestanlands.“

Mikilvæg fæðutegund

Einungis lítil vöktun hefur verið á nokkrum svæðum á sandsíli og því ekki verið hægt að leggja mat á stofnstærðina. Öflugri sýnatöku þyrfti til þess að afla nægilegra gagna til að meta stofnastærðina. Valur segir að talið sé að sandsílastofninn hafi einnig hrunið á síðasta hlýskeiði á fjórða áratug síðustu aldar. Á þeim tíma hafi lundaveiði til að mynda hrunið og talið er að ástæðan sé sú sama og nú, þ.e.a.s. skortur á sandsíli.

„Sandsíli er mjög mikilvæg tegund í vistkerfinu. Breyting hefur t.d. orðið á útbreiðslu hrefnu í Faxaflóa og víðar og leiddar hafa verið líkur að því að ástæðan sé lítil magn sandsílis á svæðunum. Sandsíli er mikilvæg fæðutegund í vistkerfinu. Tegundin er talsvert mikið veidd í Norðursjó til bræðslu. Þar fór sandsílastofninn niður en er í betra ásigkomulagi núna. Ástandið við Færeyjar hefur líka verið lélegt frá aldamótum en sumarið 2017 var meira um sandsíli í fæðu fiska þar en mörg ár þar á undan.“

Valur er jafnframt verkefnisstjóri yfir netaralli Hafrannsóknastofnunar sem nú er nýlega lokið. Hann hefur haldið utan um netarallið frá árinu 2004. Úrvinnsla er nú í gangi og skýrsla væntanleg á næstu vikum. Netarallið gefur viðamiklar upplýsingar um hrygningarstofna við landið og breytingar á fiskgegnd á hrygningarslóð.