mánudagur, 1. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sandsílið sveiflast með lundanum

Guðsteinn Bjarnason
3. nóvember 2019 kl. 07:00

Lundanum vegnar vel þegar sandsílinu vegnar vel. MYND/HAG

Rigningarsumarið 2018 fór illa með sandsílið sem náði sér ekki á strik í sumar

„Þegar svona gerist þá er náttúran í raun að setja upp tilraun fyrir okkur. „Kalt“ sólarlaust sumar 2018 í samanburði við hlýrra sólríkt sumar 2019,“ segir Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands í Vestmannaeyjum.

Sumarið 2018 varð sannkallað leiðindasumar, og það olli að sögn Erps litlum og mjög síðbúnum þörungablóma.

„Blóminn sást varla fyrr en í júní í fyrra og þegar hann loksins kom var hann eiginlega hvorki fugl né fiskur. En í ár var þetta alveg þveröfugt, stöðug sól nánast alveg frá því í mars og allt sumar. Við svona skilyrði fer blóminn í yfirgír.“

Hann segir sjávarhita að sumarlagi hafa verið að lækka á Selvogsbanka nokkur undanfarin ár, en reyndar jókst hann aftur í ár.

„Hugsanlega eru svipuð skilyrði að skapast og árið 1948 þegar lundaveiði, sem vísitala á á sílamagn, tók aftur við sér á miðju sjávarhlýskeiði, en áfram var hiti yfir langtíma meðallagi að vetrarlagi til 1965. Makríllinn hvarf einmitt 1948 eins og dögg fyrir sólu.“

Ekki svipur hjá sjón
Sandsílið er ekki svipur hjá sjón eftir þetta langa hlýindaskeið. Hrakfarir þess bitna á lundanum og öðrum sjófuglum, ekki síður en þorskinum og öðrum fisktegundum sem nærast á sílinu.

„Sandsílið sjálft reiðir sig hins vegar á rauðátu sem fjölgar mikið á vorin og fylgir í kjölfar þörungablómans enda rauðátan helstu grasbítar hafsins.“

Erpur árum saman fylgist grannt með lundanum og þær upplýsingar gefa jafnframt mikilvægar vísbendingar um stöðu sandsílisins hverju sinni. Hann hefur meðal annars skoðað tölur um lundaveiði langt aftur í tímann og segir greinilegt samband milli lundaveiði og sjávarhita.

„Við eigum langtímaseríu frá árinu 1880 sem við stefnum á að koma út vonandi núna í vetur,“ segir Erpur. „Það sem þessi langa tímaröð sýnir mjög greinilega er að veiðin fylgir sjávarhita með nokkurra ára seinkun.“

Hann segir þetta lengstu gagnaröð sem er til fyrir sjófugla í heiminum og ein af þeim lengstu fyrir fugla og sennilega fyrir fleiri dýrategundir.

„Þær eru fáar yfir öld að lengd.“

Þegar veitt er með háf segir Erpur að veiðin sé að mestu samsett af þremur ungfuglaárgöngum, tveggja til fjögurra ára. Þeir eru um 70 prósent veiðinnar.

Sjötíu ára sveiflan
„Restin af því sem veiðist eru þá eldri árgangar varpfugla. Þessi aldursskipting byggir á mismun í atferli varp- og ungfuglana. Sókn hefur verið fremur stöðug allan þennan tíma og breytingar á henni þekktar. Það sem sést greinilega eru þessi sterku viðbrögð við sjávarhita, með seinkun reyndar.“

Sjávarhitasveiflur hér við land ráðast af svonefndri AMO-sveiflu, um það bil 70 ára sveiflu í sjávarhitanum.

„Það koma 35 heit ár og síðan 35 köld ár. Við Ísland verða gríðarlegar hitabreytingar milli þessara tímabila þar sem hiti hækkar t.d. um gráðu að vetrarlagi og kvartgráðu að sumarlagi við Vestmannaeyjar. Til að átta sig á stærðargráðunni er þetta sem er spáð að nemi hnatthlýnun hér næstu öldina (líkan A1B1).“

Margir þekkja hluta þeirrar sögu.

„Hlýskeið hófst upp úr 1920 og stóð fram undir 1965, en þá hófst kuldaskeið á ný með hafísárunum svonefndu. Upp úr 1995 hófst yfirstandandi hlýskeið og sjávarhitinn náði hámarki um 2003, um svipað leyti og sandsílið tók fyrst að láta undan, og loðnan flutti uppeldistöðvar sínar frá landinu – með óhjákvæmilegum afleiðingum fyrir lundann og aðrar tegundir sem nærast á þessum tegundum. Sandsílið stendur eftir norðanlands og heldur uppi viðkomu lundans þar. Þar er sjór miklu kaldari á veturna en sunnanlands og vestan.“

Blóminn í hafinu
Erpur segir lundaveiði í Vestmannaeyjum fylgja þessum sjávarhitasveiflum.

„Hún dettur niður þegar hlýnar en eykst þegar kólnar. Hún minnkaði ennþá meira núna á þessu hlýskeiði en hún gerði á því síðasta. Það er eitthvað meira í gangi núna því hitinn núna er ekkert meiri en hann var þá. Ég tel líklegt að það sé vegna mikillar seinkunar á tímasetningu þörungablómans.“

Hann segir þörungablómann sunnan og vestanlands yfirleitt hefjast í skjólgóðum Faxaflóanum.

„Þetta gæti hugsanlega skýrt uppgang sílisins þar. Stóra spurningin er hvort og þá hvenær það myndi líka gerast á Selvogsbanka? Talsverða athygli vakti að töluvert sást af síli í fiskmögum vorið 2018 við Eyjar.“

Erpur telur að þótt sílið hafi eitthvað verið byrjað að ná sér á strik síðustu fimm ár í Faxaflóa þá hafi leiðindasumarið 2018 líklega ekki gert sílinu neinn greiða hvorki í Faxaflóa eða Selvogsbanka. Það er allavega tillaga að skýringu af hverju góð skilyrði sumarið 2019 hafi ekki dugað til að rétta það við á Selvogsbanka.

„Reyndar þarf sílið nokkur góð ár til að ná sér almennilega aftur á strik. Það hrygnir síðla hausts fram að áramótum en klakið hefst í lok mars, nær hámarki snemma í maí og stendur fram í júní. Lirfurnar eru sviflægar í 2-4 mánuði áður en þær myndbreytast og taka botn. Því seinna sem blóminn verður og þar með tímasetning rauðátunnar, því meiri líkur á að seiðin séu dauð úr hungri áður en alsnægtirnar koma. Sama gerist ef blóminn er lítill, þótt hann komi á réttum tíma þá verður sá sílaárgangur ekki stór. Þannig að þetta snýst bæði um tímasetninguna og magnið.“

Seinkun þörungablómans
„Meðaltímasetning þörungablómans fyrir Suðurlandi tímabilið 1948-1986 samkvæmt hermilíkani Kai Logeman er 5. maí eða sama tíma og sandsílaklakið er í hámarki,“ segir Erpur Snær.

Hann og samstarfsfólk hans hafa verið að skoða gervihnattagögn sem eru til frá 1998.

„Blómanum seinkar um 6 daga við Suðurland tímabilið 1998-2004 og er að meðaltali 11. maí, frá 2005-2018 seinkar honum enn frekar um aðra 7 daga og hefur blóminn verið að meðaltali 18. maí. Þetta er tveggja vikna seinkun. Á 70 ára tímabili hefur blóminn aldrei verið svona seint á ferðinni eins og eftir 2005.“

Hann segir að samhliða þessu sjáist gríðarleg seinkun í brottfarartíma lundapysja yfir svipað tímabil.

Meðalbrottfarartími 1953-2004 er 25. ágúst. Frá 2005 hefur meðaldagsetningu brottfarar pysja seinkað til 12. september eða um 18 daga sem er geysimikið. Lundinn hefur seinkað varptímanum um 2 vikur og vaxtartími pysja í Eyjum hefur lengst um viku eða svo.“

Lundaveiði á öllu landinu dróst saman um 66% 1995-2007, en þá var dregið var úr sókn, og um 91% á tímabilinu 1995-2017.

„Þetta endurspeglar líklega bæði áhrif hlýnunar og svo bætast áhrif seinkun blómans við eftir 2005,“ segir Erpur.

Krefjandi verkefni
„Þetta eru staðreyndirnar, það er erfiðara að skilja orsakasamhengið en jafnframt líka skemmtilegt og krefjandi viðfangsefni. Allavega hafa þessi hefur síli ekki átt endurkomu þessi hlýju síðblómaár á Selvogsbanka og lundinn virðist hafa aðlagað sig að almenns tilfærslu fæðuframboðs, en honum sækist hægar að ala upp ungann. Viðkoma hefur batnað síðustu þrjú ár í Eyjum en tíminn mun leiða í ljós hvort það heldur áfram, allavega er ljóst að lundinn er nálægt getumörkum sínum og lítið þarf útaf að bregða til að varp misfarist.“

Erpur segir það einkum tvennt sem getur spillt fyrir blómanum. Annað eru stormar sem blanda saman yfirborðslaginu við neðri lögin en hitt er skortur á sól. Þörungablómin verður í efsta og sólríka laginu þar sem lagskipting stuðlar að því að þörungarnir sökkvi ekki í myrkrið.

„Ef það eru miklir stormar og mikil alda við Selvogsbanka þá bæði blandast og færist ferskvatnslagið sem losnar í vorleysingunum, upp að landinu, það verður mjög ferskur sjór mjög nálægt landi bara eins og veggur. Í lygnari vorum, þá nær ferskvatnslagið miklu lengra út frá landi og flöturinn sem sólargeislunin fellur á verður miklu umfangsmeiri og blóminn stærri.“