miðvikudagur, 20. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

SeafoodSource: Makrílstríðið frétt ársins 2010

1. janúar 2011 kl. 11:50

Ísland kemur við sögu í fyrsta og tíunda sæti yfir mikilvægustu fréttir og fjölmiðlaumfjöllun á árinu 2010 sem tengjast markaðsmálum í sjávarútvegi, samkvæmt samantekt fréttavefsins SeafoodSource. Þar er um að ræða makrílstríðið (the never-ending mackerel war, eins og það er orðað) og áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli á viðskipti með fisk.

Í samantekt SeafoodSource segir að eldgosið í Eyjafjallajökli hafi leitt til þess að flugsamgöngur hafi lamast í nokkurn tíma og þúsundir tonna af ferskum fiski, sem biðu flutnings á flugvöllum víða um Norður-Evrópu, hafi skemmst.

Í níunda sæti voru fréttir um fall fyrirtækisins British Seafood en meðal annarra 10 merkustu sjávarútvegsfrétta á árinu 2010 má nefna gríðarlegan vöxt í útflutningi á laxi frá Noregi, vinsældir eldisfisksins pangasius, vaxandi mikilvægi vottunar á ábyrgum fiskveiðum og umfjöllun um tillögur um bann við túnfiskveiðum

SeafodSource skipar svo fréttaumfjöllun um makríldeilu Noregs og ESB við Ísland í fyrsta sæti eins og fyrr segir. Tekið er fram að þessi deila sé svo hörð að yfirleitt sé talað um makrílstríðið. Rakin eru helstu efnisatriði deilunnar og sagt að í ljósi þess að Ísland hafi ákveðið að halda sínu striki og að ESB hóti banni á löndun á makríl sé ljóst að þessi deila sé langt frá því að leysast.