laugardagur, 19. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Seðlabankinn verður að axla ábyrgð

8. september 2015 kl. 12:23

Þorsteinn Már Baldvinsson

Þorsteinn Már vill að æðsta stjórn Seðlabankans kalli menn til ábyrgðar. Hann hyggst senda bankaráði opið bréf þess efnis.

„Mitt mat er að innrás Seðlabankans og sú atburðarás sem fylgdi í kjölfarið sé fordæmalaus misbeiting á valdi sem gerð var á skipulegan hátt til að valda sem mestu tjóni,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í bréfi til starfsmanna fyrirtækisins í framhaldi af því að sérstakur saksóknari felldi niður sakamál á hendur honum og nokkrum lykilstarfsmönnum vegna gruns um brot gegn lögum um gjaldeyrishöft. Sjá bréfið í heild sinni HÉR.

Þorsteinn beinir spjótum sínum að framgöngu Seðlabankans í málinu, bæði varðandi rannsókn málsins og einnig vegna yfirlýsingar sem bankinn sendi frá sér nýverið í kjölfar ákvörðunar sérstaks saksóknara. Þorsteinn segir löngu tímabært að æðsta stjórn bankans axli ábyrgð með því að grípa inn í og stöðva þessa misbeitingu valds og kalli menn til ábyrgðar til að tryggja að svona lagað endurtaki sig ekki. Hann hyggst senda bankaráði opið bréf þess efnis á næstu dögum.

Þorsteinn dregur saman kjarna málsins í bréfinu til starfsmanna:

         Mál Seðlabankans á hendur stjórnendum Samherja hefur verið fellt niður

         Niðurstaða málsins er að engin saknæm háttsemi var viðhöfð

         Ásakanir og húsleit Seðlabankans voru tilhæfulausar

         Seðlabankinn verður að axla ábyrgð 

„Ég er afskaplega þakklátur og ánægður að fá þessa niðurstöðu loks í hendur eftir nær fjögurra ára rannsókn. Ég tel niðurstöðuna vera mikinn sigur fyrir okkur og viðurkenningu á faglegum og heiðarlegum störfum okkar,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn segir að Seðlabankinn hafi reynt að breiða yfir aðgerðir sínar í máli þessu með því að vísa til óskýrleika laga sem afsökun fyrir niðurfellingu sérstaks saksóknara. Þetta sé ekki rétt. Bankinn þekkti lögin. 

„Aftur vil ég ítreka við ykkur, að eftir mikla og nákvæma rannsókn sérstaks saksóknara var niðurstaðan skýr: ekkert kom fram við rannsókn málsins sem benti til saknæmrar háttsemi minnar eða annarra starfsmanna Samherja. Byggði niðurfelling málsins eingöngu á þeirri efnislegu niðurstöðu embættisins,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson í bréfi sínu til starfsmanna Samherja.