sunnudagur, 12. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Segir auðlindarentuna enga

Guðsteinn Bjarnason
17. nóvember 2019 kl. 07:00

Vinnslustöð Vestmannaeyja, arður og vextir

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson í Vinnslustöðinni segir útgreiddan arð Vinnslustöðvarinnar sem hlutfall af markaðsverði hlutabréfanna á hverjum tíma lægri en vextir á millibankamarkaði. Hann kemur einnig inn á makríldómsmálin.

„Veiðigjaldið í núverandi mynd getur aldrei gengið til lengdar,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

„Veiðigjald byggist á hugmynd um auðlindarentu eða umframarð, það er að segja ávöxtun umfram eðlilega ávöxtun. Engum hefur samt tekist að sýna fram á auðlindarentu í sjávarútvegi. Yfirlýst forsenda veiðigjaldsins er því ekki til.“

Hann fullyrðir að ekkert sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi hafi greitt hlutfallslegri meiri arð frá síðustu aldamótum en Vinnslustöðin.

„Ávöxtun hlutabréfanna í formi arðs á síðustu tveim áratugum var lægri en millibankavextir sama tímabils," segir hann og bendir á að millibankavextir fylgi grunnvöxtum Seðlabanka Íslands.

„Þeir eru viðmiðun banka í vaxtaákvörðunum sínum. Ávöxtunarkrafa hlutabréfa byggist á þessum vöxtum að viðbættu áhættuálagi. En staðreyndin er sú að ávöxtun arðgreiðslunnar hjá okkur hefur verið lakari en grunnvextir banka í öllum tilfellum nema einu, árið 2012.“

Á meðfylgjandi myndriti má sjá arð Vinnslustöðvarinnar frá aldamótum í samanburði við 360 daga vexti á millibankamarkaði. Línan stendur þar fyrir arðinn, sem hlutfall af markaðsvirði hvers árs, en súlurnar sýna vextina.

Fremur lág ávöxtun
„Vinnslustöðin, líkt og sjávarútvegurinn yfirleitt, glímdi við rekstrarerfiðleika fram undir síðustu aldamót. Frá aldamótum hefur ávöxtun Vinnslustöðvarinnar hins vegar verið betri en sjávarútvegsfyrirtækjanna í heild. Þar styðst ég við tölur Hagstofu Íslands og reikna sem framlegð (EBITDA) deildri með heildareignum á hverjum tíma.“

Eigendur Vinnslustöðvarinnar hafa síðustu fimm árin samþykkt að greiða átta milljónir evra í arð ár hvert en vegna loðnubrests og tilheyrandi samdráttar tekna 2019 var ákveðið að minnka arðgreiðslur um helming. Hann fór niður í fjórar milljónir evra vegna rekstarársins 2018.

„Þetta er há fjárhæð í íslenskum krónum talið en fremur lág ávöxtun.“

Hann hikar ekki við að fullyrða og ítreka að í íslenskum sjávarútvegi sé tómt mál að tala um auðlindarentu.

„Nú tala menn í staðinn um veiðileyfagjald. Sú áherslubreyting á sér einfaldlega stað af því ómögulegt var að finna trúverðug rök fyrir því sem ekki er til, nefnilega auðlindarentunni."

Hann segir rekstur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja jafnan hafa verið erfiðan og sveiflukenndan.

„Árið 1983 var kvótakerfi í sjávarútvegi komið á þótt sumar tegundir hafi verið kvótasettar mun fyrr og aðrar síðar. Þá var atvinnugreinin rekin með tapi í heildina og þannig var ástandið raunar alveg þangað til frjálsa framsalið tók gildi 1991. Upp úr því fóru fyrirtækin að sjá til sólar.“

Úr mínusi í plús
"Það sem gerðist hér í Vinnslustöðinni var að fyrirtækið fór fyrst að borga skatta árið 2007 frá upphafi þess tíma sem ég þekkti til reksturs þess árið 1992. Félagið var sem sagt oftar rekið með tapi en hagnaði og átti því uppsafnað tap. Hvar var auðlindarentan þá? Hún var ekki til.

Okkar fyrsta verk var að greiða niður skuldir áður en við hófum löngu tímabæra uppbyggingu. Að treysta þannig stoðir og rekstur félagsins til framtíðar gagnast ekki aðeins hluthöfum heldur er til hagsbóta fyrir starfsfólk, bæjarfélagið og Ísland allt.“

Frá árinu 1992 hefur fjöldi fyrirtækja sameinast Vinnslustöðinni.

„Ekki má horfa bara á fyrirtæki sem ganga vel eftir uppbyggingu og hagræðingaraðgerðir, heldur verður líka að hafa í huga að mörg fyrirtæki í greininni hættu rekstri af ýmsum ástæðum. Sennilega höfum við keypt nálægt hálfum öðrum tug félaga, aðallega í Eyjum, ýmist með beinum greiðslum eða sameiningum frá 1991.

Nú sem fyrr er kyrjað að stórhækka beri veiðigjöld til að borga alla mögulega hluti í ríkisrekstrinum og nú síðast til að ná endum saman í fjárlögum ríkisins. Ég svara því til að langvarandi og mikil skattheimta gerir bara eitt, að draga þrótt úr þeim sem skattlagðir eru. Gildir einu hvort á við fólk eða fyrirtæki.“

Síðari lota makrílmálsins
Hæstiréttur dæmdi í fyrra ríkið skaðabótaskylt vegna úthlutunar á makrílkvóta árin 2011 til 2014. Alþingi samþykkti í kjölfarið lög um úthlutun makrílkvóta þar sem reynt er að fara bil beggja. Útgerðarfélög í Eyjum og víðar eru engan veginn sátt við þá niðurstöðu.

„Hæstiréttur kvað upp þann dóm að stjórnvöld hefðu brotið lög með því að færa kvóta frá þeim sem áttu veiðirétt til þeirra sem engan veiðirétt áttu. Þá brást Alþingi við með því samþykkja að það hafi samt verið réttrætt að hirða af öðrum með ólögmætum hætti."

Binni segir að hann gæti á sama hátt tekið einhverjar eigur granna síns í götunni ófrjálsri hendi, fengið réttmætan dóm fyrir „en beðið þá Alþingi bara um að breyta lögum og gera gripdeildirnar að löglegum gjörningi."

Hann segir fyrirtækin nú vera að kanna stöðuna og síðan verði framhaldið ákveðið.

„Við unnum í fyrri lotunni og núna blasir við að klára síðari lotuna líka í sama dómsmáli. Hæstiréttur dæmdi okkur rétt til bóta fyrir lögbrot ríkisvaldsins og nú þarf að ákvarða bæturnar.“