þriðjudagur, 18. maí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Segir langflesta vilja kvótasetningu

Guðsteinn Bjarnason
30. apríl 2021 kl. 09:40

Stefán Guðmundsson landar grásleppu á Húsavík. MYND/Hafþór Hreiðarsson

Stefán Guðmundsson segir veiðarnar, vinnsluna og markaðinn þurfa á fyrirsjáanleika kvótakerfis að halda. Ekkert vit sé í að stýra grásleppuveiðum lengur með ólympísku sóknardagakerfi. Stefnt að stofnun Landssambands grásleppuútgerða.

Hópur grásleppuveiðimanna hefur undanfarið unnið að stofnun Landssambands grásleppuútgerða. Einn þeirra er Stefán Guðmundsson á Húsavík, en þaðan gerir hann út á grásleppu bátinn sinn Aþenu ÞH. Hann segir að hugmyndin hafi kviknað á síðasta ári þegar gerð var skoðanakönnun meðal grásleppuveiðimanna til kvótasetningar.

„Við tókum púlsinn á mönnum hringinn í kringum landið og urðum varir við mikinn áhuga og þörf á að vera með sér hagsmunafélag fyrir þennan hóp, því þetta var nú ekki alveg að gera sig hjá Landssambandinu.“

Landssamband smábátaeigenda hefur á aðalfundum ítrekað samþykkt andstöðu við kvótasetningu grásleppunnar, en á Alþingi bíður nú afgreiðslu úr atvinnuveganefnd frumvarp þess efnis. Stefán segir að þeir sem eru fylgjandi frumvarpinu „hafi yfir að ráða ábyggilega 80 til 90 prósent af veiðireynslu í grásleppu, og í sjálfu sér var þetta ekkert umdeilt innan LS nema aðallega hjá hreinræktuðum strandveiðimönnum. Við höfum undanfarin ár stutt dyggilega við þau málefni sem strandveiðihópurinn ehfur rekið og okkur fannst kominn tími á að þeir styddu við okkar hagsmuni um breytta veiðistjórnun. Svo varð ekki og það kom okkur leiðinlega á óvart. Þessi ágæti strandveiðihópur hefur akkúrat engra hagsmuna að gæta í grásleppunni. Þeir voru hræddir við að mögulega gætu einhverjir gamlingjar viljað pakka saman ef grásleppan færi í aflamark, og kannski einhverjir örfáir kaupa bátana þeirra og fara á strandveiðar þá líka. Þetta kemur nú spánskt fyrir sjónir, af því þessum hópi er mikið tíðrætt um nýliðun. En svo vilja þeir ekki nýliða í strandveiðikerfið þegar á hólminn er komið; vilja verja sitt eigið kerfi fyrir sjálfa sig.“

Engin vinnubrögð

Frumvarp um kvótasetningu grásleppu, sandkola, sæbjúgu og ígulker var rætt á þingi í janúar og vísað til atvinnuveganefndar að lokinni fyrstu umræðu. Þar bíður frumvarpið enn afgreiðslu og flestir sem Fiskifréttir hafa heyrt í telja ólíklegt að það komi aftur til þings á þessu vori. Stefán segir þó nægan tíma til stefnu og hæglega væri hægt að ljúka afgreiðslu frumvarpsins áður en þingi lýkur.

  • Aþenu siglt til hafnar á Húsavík að loknum gráslepputúr. MYND/Hafþór Hreiðarsson

„Þetta eru engin vinnubrögð og nú þarf atvinnuveganefnd að girða sig í brók, snarlega,“ segir Stefán. „Það hefur sjaldnast verið eins mikið fóður fyrir nokkru máli sem atvinnuveganefnd hefur fjallað um eins og þessu, og það er alveg rannsóknarefni að menn skuli ekki keyra þetta í gegn. Það sér það hver heilvita maður að þetta aflamarkskerfi er það kerfi sem við byggjum á, og þannig er skynsamlegt að stýra veiðum en ekki með einhverju ólympísku sóknardagakerfi.“

Þessi áhersla stangast reyndar allhressilega á við þann frelsisboðskap sem Landssamband smábátaveiðimanna hefur jafnan staðið fyrir, að helst allar smábátaveiðar eigi að vera nánast óheftar.

„Já, en menn vita að það er ekki raunveruleikinn sem getur orðið. Fyrr má nú rota en dauðrota að vera með ónýta veiðistýringu og það í alltof langan tíma með tilheyrandi óvissu hvers árs.“

Óvissan er erfið

Hann segir vandann við sóknardagakerfið þann að fyrirsjáanleiki veiðanna er enginn, sem bitnar ekki aðeins á útgerðinni heldur einnig á mörkuðunum þar sem staðan þetta árið er óvenju slæm.

„Markaðurinn þarf fyrirsjáanleika alveg eins og við. Það getur enginn gert plön í þessu dagarugli og hefur ekki getað undanfarið. Við vitum aldrei hvað við megum veiða í marga daga fyrr en korteri áður en vertíðin á að byrja. Vinnslan veit aldrei hvað hún á að ráða marga í vinnu, og vinnslan veit aldrei hvað hún fær í hús fyrr en vertíð er lokið. Hvað ætlarðu að segja við karlana: Þú hefur vinnu kannski í tíu daga eða tuttugu daga, ég bara veit það ekki. Og varðandi markaðina eins og þeir eru í dag, þá er með ólíkindum að kaupendur bæði heima og erlendis hafi sofið á verðinum í vöruþróun, sölu og markaðsmálum.“

Spurður um meðaflamál sem hafa verið grásleppuveiðum til nokkurs trafala á síðustu misserum vegna vottunarmissis á tímabili og yfirvofandi útflutningsbanni til Bandaríkjanna, þá segir Stefán að kvótasetningin hljóti að hjálpa þar til.

„Mér finnst þessar vottanir hljóti að koma til framtíðar þegar er sýnd ábyrg veiðistýring með aflamarkinu eins og í öðrum tegundum. Ég held að það verði mun auðsóttara og þá geti menn farið að haga seglum eftir vindi hver fyrir sig og í samræmi við markaðina og vinnslurnar og svo fram eftir götunum. Þetta hangir allt á sömu spýtunni.“

Markaðsvinna og vöruþróun

Þá segir hann nauðsynlegt að ráðast í öfluga markaðsvinnu og vöruþróun í grásleppunni.

„Ég held að það þurfi að stíga núna mjög róttækt skref í því sambandi eins og hefur verið gert með margar aðrar tegundir og nýjungar í vöruþróun. Núna er ekki seinna vænna en að taka höndum saman til að gera mjög massívt átak í því að hefja þessa góðu vöru upp til fyrri vegs, af því að þetta er alveg með ólíkindum að á síðustu fimmtíu árum hefur fólksfjöldinn nánast tvöfaldast,eða allt að því, fiskneysla aukist og fjölbreytileiki hennar, og svo eru grásleppuafurðir í frjálsu falli nánast á hverju ári.“

Hvað stofnun nýs félags varðar segir hann að fjölmargir hafi þegar skráð sig á stofnfund samtakanna.

„Þetta er búin að vera mikil vinna í kringum frumvarpið og svo líður tíminn hratt og menn að fylgjast með og undirbúa sig fyrir núverandi vertíð. Svo ég held að við látum þessa vertíð klárast hvenær sem það verður, og svo taka menn bara til við það að skipuleggja stofnfund og keyra þetta áfram.“