þriðjudagur, 21. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Segir makrílstofninn stórlega vanmetinn

7. janúar 2015 kl. 14:11

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Norskur fiskifræðingur telur að veiða hefði átt 5 milljónir tonna í fyrra.

Jens Christian Holst fiskifræðingur frá Noregi er framarlega í þeim hópi vísindamanna sem telur að nýting fiskistofna eigi að ráðast út frá framleiðslugetu viðkomandi vistkerfis.  Jens Christian heldur því fram að makrílstofninn hafi verið stórlega vanmetinn og veiða hefði átt 5 milljónir tonna í fyrra á stað þeirra rúmlega milljón tonna sem veidd voru.  Vistkerfinu í N-Atlantshafi sé veruleg hætta búinn með því að veiða ekki mun meira en ICES (Alþjóðlega hafrannsóknaráðið) hefur mælt með.

Þetta kemur fram í viðtali við hann í jólablaði Brimfaxa, tímarits Landssambands smábátaeigenda. 

Jens Christian (sjá mynd) starfaði áður hjá norsku hafrannsóknastofnuninni en starfar nú sjálfstætt. Hann er þeirrar skoðunar að frumframleiðslugeta N-Atlantshafsins sé þess ekki megnug að bera svo stóra uppsjávarstofna og bendir sérstaklega á makrílinn.  Þar hafi átt sér stað nýliðunarsprengja sem ríkjandi fiskveiðistjórnun - byggð á einstofna módeli sem metur hvern stofn fyrir sig óháð því umhverfi sem hann lifir í - á ekki við.  Þar verði stjórnun veiðanna að taka tillit til framleiðslugetu vistkerfisins og hversu mikla frumframleiðslugetu þurfi til að sjá fyrir ofurstórum stofnum.  Einstofna módel tekur ekki tillit til þess.

Með stjórn veiðanna með vistkerfisnálgun yrðu allir stofnarnir meðhöndlaðir sem heild í beinu samhengi við framleiðslugetu vistkerfisins.

Sjá viðtalið í heild HÉR