laugardagur, 16. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Segir málaferli framundan

Guðsteinn Bjarnason
4. ágúst 2019 kl. 07:00

Greitt úr netum á grásleppuveiðum. MYND/Þorgeir Baldursson

Vilhjálmur fullyrðir að þeir séu til sem hafi verið að sanka að sér veiðileyfum og muni sjálfsagt hagnast vel á þessu breytta fyrirkomulagi.

Samkvæmt frumvarpsdrögum sem kynnt eru í Samráðsgátt stjórnvalda á netinu stendur til að kvótasetja grásleppuveiðar. Sitt sýnist hverjum, en eitt af þeim álitamálum sem komu upp við frumvarpssmíðina var hvort miða ætti við veiðireynslu skips eða veiðireynslu leyfis.

Niðurstaðan varð sú að miða úthlutun við leyfin frekar en skipin.

Vilhjálmur Ólafsson skipasali telur fullvíst að sú leið hafi í för með sér málaferli. Ástæðan er sú að í kaupsamningum flestra smábáta, sem seldir hafa verið hér á landi síðustu árin eða jafnvel áratugina, klausa sem kveður á um það að verði bátnum síðar„úthlutað fiskveiðiréttindum eða öðrum réttindum „sem byggja á aflareynslu seljanda eða forvera hans eða öðrum sem rekja má til eignarhaldstíma þeirra þá skulu þau réttindi falla til seljanda.“

Jafnframt segir þar að séu slík réttindi „að hluta til tilkomin vegna aflareynslu kaupanda eða annarra atvika í hans tíð“ skuli skipta þeim hlutfallslega milli kaupanda og seljanda bátsins.

„Ég er hræddur um að þeir verði margir ansi svekktir sem hafa verið að selja báta undanfarið og sett þessa klásúlu inn í kaupsamninginn,“ segir Vilhjálmur, sem þekkir vel til því hann hefur séð um kaupsamninga á mörgum þeim smábátum sem seldir hafa verið hér á landi á undanförnum árum.

„Þetta er þinglýst ákvæði og ég er alveg viss um að það mun einhver láta á það reyna hvort þetta standist.“

Sanka að sér veiðileyfum
Vilhjálmur fullyrðir að þeir séu til sem hafi verið „að sanka að sér veiðileyfum. Það þarf ekkert að vera ljótt við það, en þetta eru menn sem hafa veðjað á þennan hest og munu sjálfsagt koma út úr þessu með góðum hagnaði.“

Þeir sem hafa selt báta sína eða leyfi til grásleppuveiða muni hins vegar sitja eftir með sárt ennið, enda hafi söluverðið jafnan miðast við að enginn kvóti fylgi.

„Menn hafa verið að selja grásleppubátana sína út frá því að það sé ekki að fylgja bátnum nein veiðireynsla, en þarna er með einhverju lagaákvæði hlutunum öllum breytt þannig að eftir sitja menn með sárt ennið sem töldu hagsmuni sína tryggða,“ segir Vilhjálmur.

„Á hinn bóginn er ekkert þar með sagt að mér finnist þetta endilega vera vitlausasta leiðin til að gera þetta, en það mun einhver láta á þetta reyna fyrir dómi. Það er klárt mál. Það mætti kannski líkja þessu við að kolakvóta í Faxaflóa hefði verið úthlutað á leyfi til veiða á því svæði en ekki báta með slík leyfi sem hefðu aflað reynslunnar.“

Í athugasemdum ráðuneytisins með frumvarpsdrögunum er sú ákvörðun, að miða við leyfin frekar en skipin, rökstudd með þessum hætti: „Ef farin væri sú leið að miða við veiðireynslu fiskiskipa myndi slíkt geta leitt til þess að aðilar sem stunda veiðarnar og hafa nýlega keypt sér leyfi til að veiða grásleppu fengju úthlutað sáralítilli aflahlutdeild, en þeir aðilar sem hafa selt frá sér leyfin og eru hættir að stunda atvinnuna fái úthlutað aflaheimildum.“

Ekki réttmætar væntingar
Vísað er til þess að í núgildandi lögum séu grásleppuveiðar takmarkaðar við ákveðinn hóp sem hefur rétt til að stunda grásleppuveiðar á grundvelli opinbers leyfis.

„Verði frumvarpið að lögum munu einungis þau skip sem hafa leyfi til grásleppuveiða og veitt hafa á viðkomandi leyfi á því tímabili sem afmarkað er í bráðabirgðaákvæðinu fá úthlutaða aflahlutdeild. Atvinnuréttur þeirra er því tryggður í frumvarpinu.“

Meira álitamál sé hins vegar um „rétt þeirra aðila sem hafa leyfi til að stunda grásleppuveiðar en það hefur ekkert verið veitt á leyfið á viðmiðunartímabilinu.“

Sá sem ekki hafi stundað grásleppuveiðar í sex ár geti „ekki haft réttmætar væntingar til þess að veiðistjórnun í grásleppu verði ekki breytt til samræmis við fiskveiðistjórnun helstu nytjastofna Íslands eða að atvinnuréttindi sem ekki eru nýtt sem slík leiði af sér rétt þeim til handa.“

Eftir stendur þó væntanlega spurningin um það hvort þinglýst ákvæði í kaupsamningum tryggi seljendum báta þann rétt.