miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Segir veiðarfærin lítið hafa breyst

Guðsteinn Bjarnason
26. apríl 2020 kl. 09:00

Einar leiðbeinir nemendum Háskólaseturs Vestfjarða, sem er til húsa á sama stað og Hafró á Ísafirði. MYND/GB

Olíuverð og markaðsþrýstingur ræður miklu um þróun veiðarfæra

Einar Hreinsson segir það ekkert náttúrulögmál að menn þurfi að veiða fiskinn með sama hætti og gert hefur verið síðustu árþúsundin. Hann hefur fengist við veiðarfærarannsóknir í nærri fjóra áratugi.

Töluverðar framfarir hafa orðið í þróun og hönnun veiðarfæra á undanförnum áratugum, en Einar Hreinsson segir að fátt af nútíma tækni hafa þó skilað sér í veiðarfærin sjálf, og að þau séu í eðli sínu eins og þau hafa verið um aldir. Einar hefur sinnt veiðarfærarannsóknum í nærri fjóra áratugi, þar af síðustu fimmtán árin hjá Hafrannsóknastofnun á útibúi stofnunarinnar í Vestrahúsinu á Ísafirði.

„Ég byrjaði í neðansjávarmyndatökum ´82 til ´83, en svo var ég í 25 ár hjá Netagerð Vestfjarða,“ segir Einar. „Síðan var ég lánaður hingað árið 2005 þegar Hafró ákvað að kaupa sér samskonar tækjabúnað og Netagerðin hafði átt. Það var neðansjávarmyndavélarkerfi til að skoða dregin veiðarfæri. Við vorum mikið í því frá 1983 og fram yfir aldamót.“

Starfsbróðir hans, Georg Haney, er smám saman að taka við veiðarfærarannsóknunum af Einari, enda er hann farinn að nálgast starfslok vegna aldurs. Sjálfur segist Einar vera „kominn fram yfir síðasta söludag. Ég er að fara út og er að reyna að varpa þessu yfir á hann.“

Fátt hefur breyst

„Nei,“ segir Einar og dregur seiminn nokkuð þegar hann er spurður hvort ekki hafi verið töluverð þróun í veiðarfærum á undanförnum árum. „Það er látið líta svoleiðis út, en í raun og veru hefur tæknin ekki breytt nokkrum sköpuðum hlut.“

Hann segir nokkra hreyfingu hafa komist á hlutina milli 1980 og 90 þegar Hampiðjan og Netagerð Vestfjarða fóru í samstarfi við Hafrannsóknastofnun að skoða hvernig mætti gera botnvörpur betri. Neðansjávarmyndavélar voru notaðar til að fylgjast með veiðarfærunum.

„Þá mynduðum við allar botnvörputegundir sem þá voru í gangi og þær voru endurhannaðar og bættar. Það kom svolítill kippur í þetta þá en síðan hefur þetta verið að nuddast svolítið. Það hafa komið betri hlerar og betri efni, stærri flotvörpur en engar stórbreytingar í raun og veru neins staðar .“

Hann segir olíuverðið raunar ráða miklu um þessa þróun.

„Það koma kippir í þetta þegar olíuverðið rýkur upp, en svo um og eftir aldamótin þegar búið er að hreinsa upp flotann og allir hafa nóg af fiski þá eru þeir tiltölulega hamingjusamir. Það er engin gífurleg eftirspurn eftir breytingum.“

Einar er þó ekki í vafa um að miklar breytingar eigi eftir að verða á veiðarfærum þegar fram líða stundir.

„Ég spái því, já. Olían á eftir að klóra mönnum og svo á markaðurinn eftir að vera með kjaft út af umhverfismálum. Allir útgerðarmenn vita þetta og fyrr en síðar þarf að bregðast við því. Þeir eru ekkert að bíða eftir því að við afhendum einhverjar súperlausnir en þeir styðja okkur alveg í því sem við erum að gera.“

Reynt að forðast botninn

Spurður hvaða breytinga helst sé að vænta nefnir Einar ýmsar tilraunir sem gerðar hafa verið. Langt sé síðan Hafrannsannsóknastofnun hafi ákveðið að verja kröftum starfsmanna sinna að hluta í að „leita nýrra leiða til að veiða fisk án þess að koma við botninn. Það á að reyna að gera þetta markvissara.“

Annað er svo að geta flokkað aflann.

„Það er eiginlega stærsti vandinn, að bæta kjörhæfnina þannig að þú fáir bara það sem þú ætlar að fá. Það hefur ekkert verið leyst. Menn leysa það núna við skrifborðið í kvótakerfinu, í miðlun og svona, en veiðimaðurinn hefur í raun ekki nokkur tök á því að stjórna því hvað hann fær,“ segir hann.

„Eiginlega er mesta byltingin samt í því hvað við getum vaktað flotann, þessi rafræna bylting öll og að geta verið með kontról á öllu og yfirsýn á fiskveiðarnar. En svo er ekkert náttúrulögmál að við eigum að veiða fisk með þessum hætti sem við höfum gert síðustu árþúsundin. Það bara getur ekki verið eina lausnin á því,“ segir Einar.

„En ég er alveg búinn að sætta mig við það að ég mun sennilega ekki lifa neinar breytingar sem skipta máli.“