mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Segja Norðmenn brjóta Svalbarðasáttmálann

21. september 2016 kl. 13:15

Snjókrabbi.

Evrópuþingið mótmælir banni við snjókrabbaveiðum ESB-skipa á Svalbarðasvæðinu.

Evrópuþingið telur að Norðmenn hafi ekki heimild til þess að banna ESB-skipum veiðar á snjókrabba á Svalbarðasvæðinu. Það brjóti í bága við Svalbarðasáttmálann. Norsk stjórnvöld hafa lagt almennt bann við snjókrabbaveiðum en þó er möguleiki á að veita undanþágur. Evrópuþingið telur að meðan eingöngu norsk skip geti fengið undanþágu frá banninu brjóti Norðmenn jafnræðisreglu Svalbarðasáttmálans. Fiskveiðiráð ESB leggur til að sambandið grípi til aðgerða vegna þessa, en málið á eftir að fara fyrir framkvæmdastjórn ESB sem tekur endanlega ákvörðun. 

Skip frá ESB-ríkjum hafa þar til nýlega stundað snjókrabbaveiðar á alþjóðlega hafsvæðinu í Smugunni og er bróðurparturinn af snjókrabbaaflanum sem landað hefur verið í Noregi kominn af þessum skipum. Stærstur hluti landgrunnsins í Smugunni heyrir Rússum til og snemma í þessum mánuði bönnuðu rússnesk stjórnvöld erlendum skipum að veiða snjókrabba á landgrunni sínu þar. Norðmenn hafa einnig bannað snjókrabbaveiðar á sínu landgrunnssvæði í Smugunni. Í sumar tók norska strandgæslan snjókrabbaskip frá Litháen á þessu svæði og færði til hafnar. 

Norska utanríkisráðuneytið heldur því fram að fiskveiðiréttindi annarra þjóða á Svalbarðasvæðinu nái eingöngu út að 12 mílum í kringum Svalbarða. Hafsvæðið þar fyrir utan sé undir yfirráðum Norðmanna. Samkvæmt þjóðarrétti hafi Noregur sem standríki einkarétt á að nýta lifandi auðlindir á landgrunni sínu. Aðrar þjóðir hafa ekki samþykkt þessa túlkun.