laugardagur, 16. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Selaplága í Eystrasalti

11. apríl 2011 kl. 13:34

Selir valda miklum spjöllum á veiðarfærum í Eystrasalti.

Fjöldi sela hefur fimmfaldast á tíu árum.

Fiskimenn við Eystrasalt verða fyrir stöðugt meiri búsifjum af völdu sela sem skemma veiðarfæri þeirra og éta fiskinn úr netum og gildrum. Nú er talið að 25.000 dýr séu í selastofninum í Eystrasalti eða fimmfalt fleiri en fyrir tíu árum. Fyrir þann tíma hafði verið selveiðibann í gildi í 25 ár.

Vandamálið er mest í nyrst í Eystrasalti en þar eru afföllin af völdum selsins 55% aflans. Þar um slóðir er lax mikilvægasta tegundin og fer selurinn inn í laxagildrurnar til þess að ná sér í fisk.  Úti af Skáni í Suður-Svíþjóð er hlutfall selbitins fisks 13%. Sænskir fiskimenn hafa fengið bætur frá ríkinu vegna þess skaða sem selurinn veldur.

Það er stefna sænskra stjórnvalda að ýta undir eflingu smábátaveiða. Á sama tíma eru þau aðilar að samkomulagi ríkjanna við Eystrasalt sem gengur út á að endurreisa selastofninn í hafinu til þess horfs sem lífríkið er talið þola en það er 100 þúsund selir! Það er sá fjöldi sela sem talinn er hafa verið í Eystrasalti í kringum aldamótin 1900.

Heimild: Fiskeribladet/Fiskaren í Noregi.