mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Selir rústa þorskveiðum við Borgundarhólm

16. janúar 2014 kl. 15:28

MYNDBAND – Frétt TV2 um selapláguna og afleiðingar hennar á þorskveiðar í net

Sjómenn á Borgundarhólmi í Danmörk eru að gefast upp á þorskveiðum í net vegna selaplágu. Einn þeirra, Claus Stenmann, lýsir vandanum í viðtali við TV2 sjónvarpsstöðina. Hann segir að eftir 27 ár sem sjómaður hafi hann gefist upp og sett bátinn á sölu. Sjá myndband hér

Fyrir 10 árum síðan sáust aðeins örfáir selir á svamli við Borgundarhólm en nú halda um 500 selir til við eyna. Hver selur étur 5 kíló af fiski á dag, þeir bíta þorsk í netum og síðast en ekki síst smita þeir þorskinn af ormum. 

Selaplágan hefur valdið því að sjómenn á Borgundarhólmi veiða nú aðeins 38% af þorskkvóta sínum. Claus Stenmann segir að fyrir þremur árum hafi þorskafli hans yfir árið verið 3,5 milljóna króna virði (74 milljónir ISK) en nú fær hann aðeins 700 þúsund krónur fyrir þorskinn (um 15 milljónir ISK).

Selur er talinn ógna fiskstofnum í Eystrasalti en í þessu innhafi eru 40 þúsund selir. Selurinn er friðaður í Danmörk en sjómenn krefjast þess að gripið verði til ráðstafana til að fækka selnum.