þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Selveiðar Norðmanna að lognast út af

2. október 2010 kl. 14:58

Sú var tíðin að Norðmenn veiddu á þriðja hundrað þúsund seli á ári. Á síðustu árum og áratugum hafa veiðarnar farið stöðugt minnkandi og í ár og fyrra veiddu norskir selfangarar innan við 5 þúsund seli hvort ár. Margt bendir til að þessar veiðar muni fljótlega heyra sögunni til.

Norska ríkið hefur veitt styrki til selveiðanna en þeir eru ekki nógu háir til þess að endar nái saman í rekstrinum að mati útgerðarmanna skipanna. Þess vegna hefur veiðiskipunum farið sífellt fækkandi og á síðasta vetri var aðeins einn selfangari á sjó, Havsel, sem stundaði veiðarnar djúpt norður af Íslandi.

Atvinnuveiðar Norðmanna á sel hafa farið fram á tveimur hafsvæðum. Annars vegar í Vesturísnum svokallaða sem er svæðið milli Jan Mayen og Grænlands. Á tímabilinu 1946-1970 veiddust á þessu svæði 20-40 þúsund vöðuselir á ári og til viðbótar 30-50 þúsund blöðruselir á árunum eftir stríð en veiðar á blöðrusel hafa verið bannaðar síðan 2008.  Hitt svæðið er nefnt Austurísinn, sem er í suðausturhluta Barentshafs, en þar veiddu Norðmenn á sama tímabili 80-170 þúsund vöðuselir árlega.

Íslendingar hafa aldrei verið stór selveiðiþjóð á borð við Norðmenn. Þegar mest var á síðari hluta 20. aldarinnar komst selveiðin hérlendis upp í 6-7 þúsund dýr á ári, en á undanförnum árum hefur veiðin sífellt minnkað. Á árinu 2009 veiddust 318 selir á Íslandi samkvæmt opinberum tölum.